Stjórn SÍK harmar ákvörðun matvælaráðherra

Í framhaldi af ákvörðun matvælaráðherra um að heimila hvalveiðar á ný vill stjórn Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda koma eftirfarandi á framfæri:  

 

Stjórn Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) harmar þá ákvörðun matvælaráðherra að heimila hvalveiðar á ný. Stjórnin lýsir yfir áhyggjum af afleiðingum ákvörðunarinnar og þeim orðsporshnekki sem Ísland hefur og mun verða fyrir haldi veiðarnar áfram. Nú þegar hefur fjöldi erlendra framleiðenda, leikara og umhverfissinna undirritað bréf þar sem skorað er á íslensk stjórnvöld að banna hvalveiðar. Íslenskur kvikmyndaiðnaður hefur verið í miklum vexti undanfarin ár og er um þessar mundir að festa sig í sessi sem ákjósanlegur áfangastaður fyrir hin ýmsu framleiðsluverkefni. Í þessu samhengi má nefna að velta kvikmyndaiðnaðar nam um 25 milljörðum á síðast liðnu ári, þar af er stór hluti útflutningstekjur. Afstaða alþjóðlega kvikmyndaiðnaðarins til hvalveiða vegur þungt hvort uppbygging síðustu ára haldi áfram eða að Ísland verði sniðgengið. Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum lagt mikinn metnað í að efla samkeppnishæfni íslensks kvikmyndaiðnaðar. Stjórn SÍK hvetur íslensk stjórnvöld til að horfa til heildarhagsmuna íslensks samfélags og vonast eftir skjótri samstöðu flokka um hvalveiðibann.