Höfundaréttur og skyld réttindi að kvikmyndum.

EFTIR TÓMAS ÞORVALDSSON, HDL.

Þessari grein er ætlað að veita almenna innsýn í höfundarétt. Síðar verður fjallað um skyld réttindi þ.e. réttindi listflytjenda  (leikara og tónlistarmanna), framleiðenda og útvarps og sjónvarpsstöðva. Ennfremur verður tekið á því hvernig öll ofangreind  réttindi horfa við kvikmyndagerð.  Í síðari greinum verður einnig leitast við að skýra hvaða og hvernig samninga er nauðsynlegt að gera til þess að mögulegt sé að sýna og dreifa kvikmynd með eðlilegum hætti. 

Höfundaréttur –   almenn skilgreining

Höfundaréttur felur í sér einkarétt höfundar til þess að ráðstafa verki sínu bæði gagnvart fjárhagslegum réttindum og svokölluðum ófjárhagslegum réttindum. Til þess að verk sé talið njóta verndar að höfundarétti þarf verkið að uppfylla ákveðin skilyrði. Í  íslenskum höfundarétti hefur verið miðað við að í verki  þurfi að koma fram andleg sköpun sem sé ný og sjálfstæð a.m.k. að formi til. Þessi viðmiðum er augljóslega mjög óhlutlæg og allt mat í þessu sambandi hlýtur að vera mjög afstætt. Í sem stystu máli má segja að á þessi skilyrði reynir afar sjaldan gagnvart kvikmyndum sem verkum í skilningi höfundalaga en kvikmyndir njóta verndar samkvæmt 2. mgr., 1. gr.höfundalaganna nr. 73/1972. Það er ennfremur skilyrði að verkið hafi verið skapað, þ.e. verkið hafi tekið á sig eitthvert birtingarform (tjáningarform) t.d. sem handrit eða filma. Þannig njóta hugmyndir, sem ekki hafa verið settar fram með skriflegum eða öðrum áþreifanlegum hætti,  ekki verndar að höfundarétti.

Fjárhagsleg réttindi höfundar felast einkum í einkarétti hans til þess að selja verk sitt og birta það með einhverjum hætti (með flutningi, sýningu útgáfu) gegn greiðslu. Í þessu felst, að engum öðrum aðila er heimilt að nýta verk höfundar í fjárhagslegum tilgangi án þess að hafa fengið til þess sérstakt leyfi höfundarins með samningi, sem að íslenskum rétti getur verið hvort heldur sem er munnlegur eða skriflegur. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að höfundaréttur er talinn til eignaréttar samkvæmt fræðikerfi íslenskrar lögfræði. Ofangreindur fjárhagslegur réttur höfundar er framseljanlegur og geta slík framsöl bæði verið í formi endanlegs afsals eða takmarkaðs framsals t.d. hvað varða tímalengd og  landsvæði.

Þegar talað er um ófjárhagsleg réttindi höfundar er átt við þau réttindi sem einnig eru kölluð sæmdarréttur(alþjóðlega heitið er “Droit Moral”, enskt heiti “Moral Rights”) og taka til þeirra réttinda höfundar sem verja eiga sæmd hans, höfundaheiður og höfundasérkenni. Nánar tiltekið er skylt eftir því sem við á, að geta nafns höfundar á eintökum verks og þegar það er birt (nafnbirtingaréttur, auðkenningarréttur). Ennfremur er óheimilt að breyta verki höfundar eða birta með þeim hætti eða í því samhengi að skert geti höfundaheiður hans eða höfundarsérkenni.  Réttindi þessi eru óframseljanleg nema í einstökum tilvikum sem skýrt skulu tilgreind bæði hvað varðar tegund og efni. Sæmdarréttur höfunda á rót sína að rekja til þess að höfundaréttur er einnig talinn til persónuréttar höfundarins, enda eru verk hans sprottin af  andlegri sköpun hans sem einstaklings. Eðli höfundaréttar sem persónuréttar hefur einnig þá þýðingu að fyrirtæki, félög, samtök og stofnanir (ópersónulegir aðilar) geta aldrei talist höfundar þó slíkir aðilar geti auðvitað fengið fjárhagslegan umráðarétt að verkum með framsali frá höfundi.

Í höfundalögum eru talin upp þau verk sem teljast vernduð af höfundarétti, meðal þeirra eru kvikmyndir. Hugtakið kvikmynd í höfundaréttti er skýrt mjög rúmt, það á þannig við allar gerðir kvikmynda hverju nafni sem nefnast, t.d.  teljast stuttar auglýsingamyndir til kvikmynda í þessu sambandi. Ekki skiptir heldur máli hvaða miðlunarform er notað, þannig nær hugtakið yfir kvikmyndir á filmu, myndbandi, geisladiskum og yfirleitt til allra þeirra aðferða sem skilað geta “kvikum” myndum.

 

Hverjir eru höfundar í skilningi höfundalaga?

Höfundur að frumverki. Sá maður telst höfundur verks sem skapar það. Eins og áður sagði eru það einungis einstaklingar sem talist geta höfundar þar sem ópersónulegir aðilar skapa ekki verk. Gagnvart sönnunarreglum er almennt sá maður talinn höfundur verks sem nafngreindur er við birtingu eða á eintökum þess með venjulegum hætti. Þetta gildir einnig um höfunda sem nota gervinöfn eða merki, þegar almennt er vitað, hvað felst þar að baki.  Þessi regla á einnig við um framleiðanda kvikmyndaverks. Hafi höfundur ekki verið nafngreindur skal útgefandi koma fram fyrir hans hönd uns annað kemur í ljós. Þannig er ljóst að vilji einhver annar aðili en höfundur eða útgefandi hans nýta sér ákveðið verk með fjárhagslegum hætti verður hann að ganga út frá því að einhver höfundur sé því að baki, jafnvel þó að, nafn höfundarins sé ekki þekkt, og til höfundar verði viðkomandi að sækja þann rétt sem hann vill nýta.

 

Höfundur að aðlögun verks.  Aðlagandi verks á höfundarétt að viðkomandi verki í hinni breyttu mynd þess. Hér er t.d. um að ræða þýðendur, höfunda sem hafa aðlagað skáldsögu að kvikmyndaformi – skrifað kvikmyndahandrit eftir skáldsögu eða öðrum verkum s.s. leiksviðsverki eða ljóði. Réttur þessi er sama eðlis og réttur frumhöfundar en nær þó auðvitað til þeirra þátta hins aðlagaða verks sem frá aðlaganda er kominn. Hinsvegar getur aðlagandi ekki birt verk sitt eða nýtt með öðrum hætti án sérstaks leyfis frumhöfundarins.

Samhöfundar – sameign að höfundarétti.  Í þeim tilvikum þar sem tveir menn eða fleiri eru höfundar að sama verki og framlög þeirra verða ekki aðgreind hvert frá öðru sem sjálfstæð verk eiga slíkir höfundar saman höfundarétt að verkinu. Gott dæmi um samhöfunda að kvikmyndaverki er t.d. þegar handrit er samið af tveimur mönnum og annar semur einungis samtalstexta. Þegar um samhöfunda er að ræða á sú regla við gagnvart ráðstöfunarétti þeirra að verkinu, að hvorugur getur gert framsalssaminga án samþykkis hins.

 

Höfundar safnverka.  Hér er um það að ræða, að einn maður (eða fleiri) setur saman verk sem samanstendur af verkum annarra (t.d. ljóðasafn antalogia) með þeim hætti að telja verður framsetningu hans og framlag fela í sér sjálfstæða andlega sköpun. Viðkomandi nýtur þá höfundaréttar að verkinu hvað varðar framlag hans.

Takmarkanir á höfundarétti

Þrátt fyrir að höfundaréttur sé talinn til eignarréttar gilda ýmsar sérstakar takmarkanir um höfundarétt, sem eru frávik fá meginreglunni um einkarétt höfundar til ráðstöfunar verka sinna. Þær tegundir takmarkana sem mest hafa gildi gagnvart viðfangsefni þessarar greinar eru þessar helstar.

 

Eintakagerð til einkanota.  Almennt er heimilt, án samþykkis höfundar eða rétthafa,  að gera eintök af verki til einkanota eingöngu, þó má enginn gera eða láta gera fleiri en þrjú slík eintök til notkunar í atvinnu sinni. Frá þessari reglu eru þó ýmsar undantekningar nefndar í höfundalögum einkum er varða, mannvirkjagerð, tölvuforrit og höggmyndalist, nytjalist, dráttlist, tónverk og bókmenntaverk. Undantekningar þessar eiga þó ekki við hvað varðar höggmyndalist, nytjalist, dráttlist, tónverk og bókmenntaverk, nema leitað sé til annarra manna, sem í tilviki tónverka og bókmenntaverka hafa atvinnu af slíkri aðstoð. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að hið svokallaða IHM gjald, þ.e. gjald sem lagt er á eintök á auð hljóð og myndbönd og tæki til afspilunar slíkra banda er hugsað sem bætur eða þóknun til rétthafa vegna eintakagerðar sem fram fer að mestu með upptökum úr hljóðvarpi eða sjónvarpi.  Slík eintakagerð er með öðrum orðum heimil en rétt þykir að bæta rétthöfum tekjumissi sem þeir verða fyrir að þessum völdum.

  1. Tilvitnun í  bókmenntaverk, kvikmyndaverk og tónverk eru heimil ef  hún er gerð í sambandi við gagnrýni, vísindi, almenna kynningu eða í öðrum viðurkenndum tilgangi, enda sé hún innan hæfilegra marka og rétt með efni farið.

Heimildir vegna frétta og upplýsingaþjónustu. Fjölmiðlum er heimilt í ýmsum tilvikum að birta myndir eða teikningar af birtum listaverkum í sambandi við fréttir af dægurviðburðum, þó nær þessi heimild t.d. ekki til kvikmyndar sem gerð væri í slíkum tilgangi eingöngu.

Fjölföldunarheimildir.  Um er að ræða sérstakar heimildir sem ýmsir aðilar, svo sem skólar og opinberar stofnanir geta haft til þess að ljósrita og fjölfalda verk hafi þeir aflað sér slíkrar heimildar með samningi við samtök höfundaréttarfélaga sem kallast nú Fjölís.

Heimild til endurvarps útvarpsefnis um kapalkerfi.   Hafi verki verið útvarpað beint eða um gervihnött, má án sérstaks leyfis rétthafa, endurvarpa til almennings um kapalkerfi enda sé verkinu endurvarpað óbreyttu og samtímis upphaflegri sendingu. Rétthafar geta þó krafist þóknunar nema um sé að ræða endurvarp til kapalkerfis sem tekur til færri samtengdra aðila eða íbúða en 25. Slík krafa verður aðeins gerð af samtökum rétthafa á þessu sviði.

Heimildir til útleigu og lána verka. Almennt er heimilt að leigja og lána (bókasöfn) bókmenntaverk. Hinsvegar er slíkt ekki heimilt gagnvart kvikmyndaverkum og tónverkum, nema með heimild rétthafa.

Sýningar myndverks í sjónvarpi eða kvikmynd.  Eiganda myndverks (sem getur auðvitað verið annar en höfundur) er heimilt að leyfa birtingu myndverks í sjónvarpi eða kvikmynd enda sé myndin aðeins aukaatriði í efni kvikmyndar eða sjónvarpsdagskrár. Ennfremur er sjónvarpsstöð heimilar slíkar birtingar hafi hún samið um slíkan rétt við samtök myndréttarhafa sem nú nefnast Myndstef.

 

Hversu lengi gildir höfundaréttur? 

Almenna reglan er sú að höfundaréttur að verki gildir í 70 ár frá og með næstu áramótum eftir lát viðkomandi höfundar. Hafi höfundar að verki verið fleiri en einn telst verndartími frá næstu áramótum eftir lát þess höfundar er lengst lifir. Sérregla gildir um kvikmyndaverk á þá leið að ofangreint 70 ára tímabil telst frá næstu áramótum eftir lát þess sem lengst lifir af eftirgreindum höfundum kvikmyndaverks, aðalleikstjóra, handritshöfundar (þ.m.t. höfundar samtalstexta) og tónhöfundar enda sé tónlistin samin sérstaklega til afnota í kvikmyndaverkum.

Eftir að ofangreindum verndartíma lýkur er almenna reglan sú að öllum sé heimil notkun viðkomandi verks. Verkið er þannig orðið að almanna eign (enska Public Domain) sem auðvitað felur það í sér að enginn getur krafisteinkarétttar yfir því. Hinsvegar getur stofnast sjálfstæður höfundaréttur að aðlögun á viðkomandi verki t.d. þegar kvikmyndahandrit byggir á gamalli skáldsögu, þá á höfundur handritsins höfundarétt á þeim hlutum þess sem frá honum koma.

 

Framsal höfundaréttar – aðiljaskipti að höfundarétti.

Aðiljaskipti að höfundarétti geta að meginstofni orðið með fernum hætti, með framsalsamningi, erfðum, hjúskap eða í afmörkuðum tilvikum með fullnustu skuldheimtumanna. Þess ber þó að geta að höfundaréttur sem slíkur er ávallt séreign höfundarins meðan hjúskapur stendur og hann er lífs en hinsvegar teljast tekjur af höfundarétti til hjúskapareignar. Að höfundi látnum telst höfundaréttur til hjúskapareignar. Lögsókn skuldheimtumanna og aðför (fjárnám) í höfundarétti er óheimil nema í því tilviki að um sé að ræða aðila (skuldara) sem fengið hefur til sín rétt með samningi við höfund og þá því aðeins að skuldaranum hafi verið heimilt að framselja réttinn til þriðja aðila.

Um framsalssamninga höfunda verður fjallað í næstu grein minni svo að ekki verður fjallað nánar um það efni hér.

 

Úrræði til verndar höfundarétti – brot gegn höfundarétti.

Áður er vikið að því að höfundaréttur er talinn til eignarréttar og eru viðurlög við brotum gegn honum í samræmi við það. Þannig varða aðgerðir sem brjóta í bága við einkarétt höfundar t.d. gagnvart birtingu og eintakagerð verka hans, sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Ýmis önnur brot gegn höfundarétti varða sömu refsingu en of langt mál er að telja þau upp hér.  Ennfremur má gera upptæka eða ónýta þá muni sem notaðir hafa verið í sambandi viðhöfundaréttarbrot, s.s. myndbandsspólur o.s.frv. Að auki á höfundur rétt á því að sækja skaðabætur úr hendi hins brotlega. Skaðabætur í þessu sambandi skiptast í tvo flokka annarsvegar almennar fébætur og hinsvegar miskabætur. Fébætur eiga bæta það fjártjón sem höfundur hefur orðið fyrir af völdum brotsins en miskabætur þaðófjárhagslega tjón sem höfundur hefur mátt þola vegna brota gegn sæmdarrétti hans. Miskabætur koma því fyrir andleg sárindi, vanlíðan, hneisu o.þh.

 

Í næstu greinum mínum verður fjallað um rétttindi skyld höfundarétti, svokölluð grannréttindi höfundaréttar en þau taka til réttinda listflytjenda (leikara og tónlistarmanna), framleiðenda og útvarps og sjónvarpsstöðva. Þá verður einnig tekið sérstaklega á þeim þáttum höfundarréttarins sem sérstakir eru um kvikmyndir og ekki hefur verið fjallað um  í þessari grein.  Loks verða reifaðar helstu tegundir samninga á þessu sviði.

 

Þessi grein var birt í Landi og sonum

blaði nr. 28 – MARS/APRIL 2001 2.TBL. 7.ÁRG