Leikið íslenskt
sjónvarpsefni

 

Staða, horfur og möguleikar

 

 

 

 

 

 

Júní 2002

 

 

 

 

Skýrsla gerð af
Sigurði G. Valgeirssyni
fyrir Aflvaka hf.

 

 

 

 

 

 

 

 


 

 

 

 

Formáli

 

Ör þróun hefur átt sér stað innan íslenskrar kvikmyndagerðar á síðustu árum og má segja að greinin hafi tekið markviss skref í þá átt að verða alvöru atvinnugrein. Margir eru hins vegar á því að mikilvægur hluti þessarar starfsemi, þ.e. gerð leikinna sjónvarpsmynda, hafi setið á hakanum og þar hafi ríkt stöðnun frekar en þróun fram á við.

Að beiðni Aflvaka hf. hefur Sigurður G. Valgeirsson tekið saman meðfylgjandi skýrslu um leikið íslenskt sjónvarpsefni. Þetta er gert að tilhlutan ýmissa samtaka sem koma að kvik­mynda­gerð hér á landi. Markmið samantektarinnar er að skapa heilstætt yfirlit yfir sögu þessarar greinar, núverandi stöðu, möguleika og horfur. Tilgangur með slíkri samantekt er m.a. að fá fram umræðu um viðfangsefnið sem m.a. snýst um hvort skynsamlegt sé að efla þennan þátt menningarstarfsemi.

Í lok skýrslunnar er sett fram spurningin um hvaða úrræði séu til þess að efla íslenska sjónvarpsmyndagerð. Þar er m.a. viðruð hugmynd um stofnun Sjónvarpsmynda­sjóðs og settar fram ýmsar tölur og útreikningar í því sambandi. Í upphafi ber að taka fram að hér er ekki um hugmyndir eða tillögur Aflvaka að ræða heldur er þar verið að vísa í hug­myndir sem uppi eru innan greinarinnar og öll umfjöllun í skýrslunni er að sjálfsögðu á ábyrgð höfundar.

Það er von Aflaka hf. að skýrslan nýtist vel sem grundvöllur að markvissri umræðu um stöðu leikins íslensks sjónvarpsefnið og geti þannig stuðlað að skynsamlegum ákvörðunum í málinu.

 

 

Reykjavík í júní 2002

 

 

 

 


Ari Skúlason
framkvæmdastjóri Aflvaka hf.


 

Efnisyfirlit

Inngangur – Hvers vegna er þessi skýrsla gerð
og um hvað fjallar hún?....................................................................... 5

I. Hvað telst leikið sjónvarpsefni?.................................................... 5

Skilgreining..................................................................................................... 5

Einkenni leikins sjónvarpsefnis....................................................................... 6

Upptaka með mörgum vélum...................................................................... 6

Stórar og litlar þáttaraðir............................................................................ 7

Flokkar leikins efnis í bandarísku sjónvarpi.................................................. 7

Flokkun leikins efnis hjá norrænum stöðvum................................................ 7

Danmarks Radio.......................................................................................... 7

II. Leikið efni í íslensku sjónvarpi....................................................... 9

Staðan á Íslandi – sagan og þróunin............................................................... 9

Þróunin í gerð leikins sjónvarpsefnis á Íslandi............................................ 10

Stöð 2 og leikna efnið.................................................................................... 12

Skjáreinn og leikna efnið............................................................................... 12

Sjónvarpið og leikna efnið............................................................................. 12

Barnaefni Sjónvarpsins – lítið en samfellt.................................................. 13

Áhugi á samtímaefni................................................................................... 14

Áherslur um þessar mundir.......................................................................... 15

III. Leikið sjónvarpsefni og sjálfstæðir framleiðendur...... 16

Sjónvarpið í samvinnu við sjálfstæða kvikmyndaframleiðendur................ 16

Þróun leikinnar sjónvarpsþáttaraðar – tvær reynslusögur...................... 17

Stöðvarnar og sjálfstæðir framleiðendur.................................................. 19

Enn á byrjunarreit........................................................................................ 19

IV. Hvers vegna á að efla gerð leikins íslensks sjónvarpsefnis?........................................................................................ 21

Hvers vegna leikið efni?................................................................................ 21

Menningarleg rök fyrir eflingu leikins íslensks sjónvarpsefnis................. 22

Efnahagsleg rök fyrir eflingu leikins íslensks sjónvarpsefnis.................... 22

Hlutfall leikins efnis í kvölddagskrá íslensku stöðvanna.......................... 22

Staða leikins íslensks efnis í sjónvarpi miðað við aðrar listgreinar........... 23

V. Samanburður við grannlöndin.................................................... 25

Áherslur á hinum Norðurlöndunum............................................................ 25

Samanburður framleiðslu Íslendinga og hinna Norðurlandanna.............. 27

Hvernig starfar fullvaxin leiklistardeild í sjónvarpi?.............................. 28

VI. Styrkir og stuðningur til gerðar leikins sjónvarpsefnis........................................................................................................................... 30

Viðleitni stjórnvalda til að efla leikið efni í sjónvarpi............................... 30

Möguleikar til samvinnu út fyrir landsteinana
og aðgangur að fjármagni............................................................................. 30

Nordvision................................................................................................. 30

Norræni sjónvarpssamvinnusjóðurinn...................................................... 31

Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn............................................ 32

MEDIA Plús áætlunin og íslenskt leikið sjónvarpsefni.............................. 33

Einstök verkefni......................................................................................... 33

Verkefnapakkar......................................................................................... 33

Stuðningur við dreifingu sjónvarpsefnis.................................................... 34

VII. Leikið íslenskt sjónvarpsefni – Hvað er til ráða.............. 35

Hugmyndir um Sjónvarpsmyndasjóð............................................................ 35

Efling íslenskrar menningar........................................................................ 38

Að lokum: Sjónvarpsmyndasjóður
– sameiginlegt baráttumál íslenskra listamanna...................................... 39

Viðaukar og heimildir........................................................................... 40

Viðauki I - Skilgreiningar á flokkum leikins sjónvarpsefnis....................... 40

Viðauki II - Viðmælendur við skýrslugerðina.............................................. 41

Heimildaskrá:................................................................................................ 42

Prentaðar heimildir.................................................................................... 42

Óprentaðar heimildir................................................................................. 42

Heimasíður sem efni er sótt á.................................................................... 42

 


Inngangur – Hvers vegna er þessi skýrsla gerð
og um hvað fjallar hún?

Skýrsla þessi er unnin á vegum Aflvaka og að tilhlutan Bandalags íslenskra listamanna, Félags kvikmyndagerðarmanna, Framleiðendafélagsins SÍK[1] og Kvikmyndasjóðs Íslands. Tilgangurinn með henni er að sýna stöðu leikins efnis í sjónvarpi, hvernig fram­tíðin lítur út að öllu óbreyttu og jafnframt að benda á úrræði til að styrkja þetta svið.

Í skýrslunni er litið á það sem gert hefur verið af leiknu efni hérlendis. Forvitnast er einnig um hvaða áform eru um gerð leikins efnis meðal íslenskra sjónvarpsstöðva og kvik­mynda­fyrirtækja. Þá er rætt um mikilvægi leikins sjónvarpsefnis og þá þýðingu sem það hefur fyrir Íslendinga og íslenska menningu. Að lokum er stuttlega vikið að því sem land­kynn­ingu og hvaða möguleika það hefur til útflutnings.

Til viðbótar þessu er litið á rökstuðning fyrir því hvers vegna aðrar þjóðir telja mikilvægt að gera sjónvarpsefni og safnað saman nokkrum rökum fyrir því hvers vegna Íslend­ingum ætti einnig að finnast það mikilvægt. Farið er yfir hvaða sess innlent leikið sjón­varps­efni hefur í nágrannalöndunum og hvaða fjármagni er veitt til þess þar. Jafn­framt er skoðað hvernig uppbyggingu og stuðningi við það er háttað í nágranna­löndunum.

Í lok skýrslunnar er sagt frá hugmyndum sem uppi eru innan Bandalags íslenskra lista­manna og allra fagfélaga kvikmyndagerðarmanna um stofnun sjónvarpsmyndasjóðs og dregnar upp útlínur slíks sjóðs. Sett er upp ímyndað dæmi miðað við sjóð sem hefur um 300 milljónir til umráða árlega til gerðar leikins efnis í sjónvarpi og skoðað hversu mikið efni væri hægt að framleiða, hve mikið fjármagn hann drægi til landsins, hversu mikið ríkið fengi til baka af peningunum og hve mikla atvinnu sjóður af þessu tagi myndi skapa í röðum kvikmyndagerðarmanna.

I. Hvað telst leikið sjónvarpsefni?

Skilgreining

Þegar skilgreina á hvað leikið sjónvarpsefni er liggur beint við að líta til Eddu­verð­laun­anna. Í verðlaunaflokknum besta leikna sjónvarpsefni er lýsingin svohljóðandi: „sjón­varps­myndir, þáttaraðir eða stakir þættir, einnig stuttmyndir, hvort sem þær hafa verið sýndar í sjónvarpi eða kvikmyndahúsum.” Leikið efni fyrir börn er ekki nefnt sérstak­lega í þessari skilgreiningu en það verður tekið með í þessari skýrslu.

Edduverðlaunin í flokknum leikið efni hafa, þau þrjú skipti sem þau hafa verið veitt, farið til gamanþáttanna Fóstbræðra á Stöð 2. Skilgreining Edduverðlaunanna miðast þannig ekki einungis við afmörkuð heildstæð leikverk heldur við allt leikið efni, þar með talið Áramóta­skaup, Spaugstofuna og fleiri hliðstæða þætti.

Segja má að þessi víða skilgreining Edduverðlaunanna undirstriki hversu takmörkuð fram­leiðsla leikins efnis í íslensku sjónvarpi er. Þættir á borð við Fóstbræður og Ára­móta­skaup eru ekki flokkaðir með leiknu efni í nágrannalöndunum. Þar er litið á slíka þætti sem afþreyingar- og skemmtiefni. Í þessari skýrslu verður miðað við heildstæð leik­verk þegar talað er um leikið sjónvarpsefni.

Einkenni leikins sjónvarpsefnis[2]

Hluti þess leikna efnis sem er framleitt fyrir sjónvarp er unninn á allt annan hátt en kvik­myndir. Annað sem einkennir leikið efni í sjónvarpi er að það er mjög gjarnan langar eða stuttar myndaraðir þar sem ýmist fer fram einni meginsögu með mörgum hliðar­sögum eða ein saga er sögð í hverjum þætti sem hefur sömu persónur og sögusvið.

Til glöggvunar er rétt að byrja á því að skoða hvernig leikið efni er framleitt í löndum þar sem framleiðsla þess er mikil og jöfn og hefð hefur komist á um hvernig tilreiða skuli það. Þá er einnig vert að líta á hvernig vinnu er háttað við gerð leikins sjónvarps­efnis.

Upptaka með mörgum vélum

Sérstaða hluta þess leikna efnis sem gert er fyrir sjónvarp er upptaka með þremur eða fleiri upptökuvélum í einu í samsettri leikmynd í myndveri. Á þennan hátt eru bæði sápur og „situation comedies”, hér eftir nefndar gamanþáttaraðir, teknar upp. Ástæða fyrir því að þessi aðferð er notuð er sú að með henni er hægt að taka upp langa hluta hvers verks á stuttum tíma. Verkin eru samin fyrir leikmynd, með nokkur svið, sem sett hefur verið upp og lýst í myndverinu. Sá tími sem það tekur að fara á milli staða og lýsa og stilla upp fyrir tökur græðist með þessu móti. Tími og peningar sparast einnig vegna þess að hægt er að taka upp langar lotur úr verkinu og klippa það um leið og það er tekið upp með því að skipta á milli tökuvélanna sem ekið er um gólf myndversins. Eftir­vinnsla þessara verka er svo tiltölulega fljótleg.

Þeir sem gagnrýnt hafa þessa upptökuaðferð hérlendis hafa bent á að óvíst sé hversu hag­kvæm þessi framleiðsla sé þegar verið er að gera stök verk. Hagkvæmnin verði ein­ungis ef um fjöldaframleiðslu sé að ræða. Þeir benda einnig á að markaðsgildi fram­leiðslu af þessu tagi sé ekkert utan Íslands. Almenn gagnrýni á þessa upptökuaðferð er einnig sú að vegna þess að í þessum verkum gerist sagan í fáum, fyrirfram ákveðnum rýmum inni í myndveri séu verkin stirðleg og ólífræn. Persónurnar séu alltaf í sömu tveimur stofunum þar sem fólk tali og tali. Einu skiptin sem farið sé út fyrir hússins dyr sé í nokkrum myndskeiðum af fram­hliðum húsa til þess að sýna áhorfandanum hvar hann er staddur.

Þeir sem halda fram þessum aðferðum benda á að ef vel sé að verki staðið geti þessar sögur hrifið áhorfendur og að þær nái að lýsa hversdagslegum veruleika. Sagan sem verið sé að segja, persónusköpun og leikur skipti alltaf höfuðmáli og að þetta sé ódýr leið. Dæmi um efni sem tekið er upp á þennan hátt eru sápur og gamanþáttaraðir, sem hvort tveggja er dæmi­gert leikið sjónvarpsefni. Vinsældir þessara þátta eru, þegar vel tekst til, gríðarlegar. Þá er þessi upptökuaðferð mun ódýrari en aðrar aðferðir sem flestir eru sammála um að gefi útkomu sem endurspegli raunveruleikann betur. Þetta styðja meðal annars tölur frá norrænum ríkisstöðvum sem fram koma hér að aftan.

Tvær dæmigerðustu tegundir sjónvarpsefnis, gamanþáttaraðir og sápur, eru sem fyrr segir teknar upp á þennan hátt. Gamanþáttaraðirnar eru tæplega hálftíma langir þættir þar sem söguhetjurnar eru alltaf þær sömu. Sviðin eru til dæmis heimili og vinnustaður. Húsin eru staðsett í borg, bæ eða hverfi með stuttum myndskeiðum af framhliðum þeirra. Annars fara allar upptökur fram í myndveri með mörgum tökuvélum. Í hverjum þætti er sögð ein saga. Dæmi um gamanþáttaraðir er til dæmis Everybody Loves Raymond á Skjáeinum, Becker sem sýndur er í Sjónvarpinu og Friends á Stöð 2.

Sápurnar eru til bæði sem vikulegir þættir en einnig þekkist að þær séu framleiddar fyrir hvern virkan dag, fimm á viku. Dæmi um sápu sem sýnd er vikulega er breska sápu­þátta­röðin Eastenders, sem um tíma var sýnd á Stöð 2. Leiðarljós sem sýnd hefur verið í Sjón­varpinu er dæmi um sápuframleiðslu þar sem þættir eru framleiddir fyrir alla virka daga. Sagan í sápum er endalaus og þar fer í hverjum þætti fram einni meginsögu með mörgum hliðar­frásögnum.

Stórar og litlar þáttaraðir

Önnur framleiðsla í sjónvarpi sem er einkennandi fyrir miðilinn eru ýmis konar þátta­raðir sem unnar eru með einni upptökuvél þar sem bæði er tekið upp í myndveri og á ýmsum stöðum. Þessar þáttaraðir eru miklu dýrari en sápu- og gamanþáttaraðirnar. Þær eru jafn­framt yfirleitt áhugaverðari og betri söluvara ef vel tekst til. Sögulegar þátta­raðir, þar sem endurgera þarf tímabil í sögunni með tilheyrandi búningum, húsum og tíðar­anda, eru svo eitthvert dýrasta leikna efni sem gert er fyrir sjónvarp.

Bráðavaktin er dæmi um þáttaröð sem er framleidd í lotum. Hver lota er 22 þættir og er mikið fé lagt í gerð þeirra. Vinsældir þáttaraðarinnar ákvarða svo hvort áfram er haldið og ný röð er tekin upp eða ekki. Danska framhaldsmyndaröðin Taxi er dæmi um nokkuð dýra sjónvarpsþáttaröð. Danska þáttaröðin Bryggeren, sem sýnd var í Sjónvarpinu, sem margir áhorfendur muna vafalaust enn eftir, er dæmi um dýra sögulega þáttaröð. Dýr­asta sjón­varps­efnið eru stakar sjónvarpsmyndir sem geta verið klukkustund að lengd eða jafnvel í bíómyndalengd. Þessar myndir geta nálgast bíómyndir í kostnaði.

Flokkar leikins efnis í bandarísku sjónvarpi

Bandaríkjamenn framleiða sápur og gamanþáttaraðir á ódýrasta hátt til sýninga í sjón­varpi. Þá framleiða Bandaríkjamenn einnig margs kyns þáttaraðir sem meira er lagt í: löggu­þætti, lögfræðingaþætti og læknaþætti á borð við Bráðavaktina. Til viðbótar þessu koma svo sjón­varps­myndir og sögulegar þáttaraðir.

Eins og við er að búast af Bandaríkjamönnum lúta allir þættir sem þeir framleiða ströngum reglum um lengd enda eru allar dagskrár sjónvarpsstöðva byggðar á ákveðnum einingum þar sem allt verður að standast innbyrðis. Sem dæmi er hver þáttur gaman­þáttaraða yfirleitt hálftími með auglýsingum. Stærri raðir eru gerðar þannig að hver þáttur fylli heila klukku­stund með auglýsingahléum.

Bandarískur sjónvarpsmarkaður er gríðarlega stór. Heimamarkaðurinn er um það bil 1000 sinnum stærri en sá íslenski. Þá er vegna tungumáls, þekktrar, vinsællar og viður­kenndrar menningar og gæða framleiðslunnar mögulegt að selja leikið bandarískt sjón­varps­efni um allan heim.

Flokkun leikins efnis hjá norrænum stöðvum

Norrænu ríkissjónvarpsstöðvarnar, að Sjónvarpinu undanskildu, vinna skipulega að fram­leiðslu leikins sjónvarpsefnis. Þar er efni framleitt í ákveðnum fyrirfram skil­greindum flokkum og framleiðsla helst svipuð frá ári til árs. Margir þessir flokkar eru þeir sömu eða svipaðir því sem gerist í Ameríku og ýmsum öðrum Evrópulöndum. Allar hinar norrænu stöðvarnar, sem framleiða leikið efni, gera þáttaraðir.

Danmarks Radio

Í dagskrárblaði leiklistardeildar Danmarks Radio, sem gefið var út fyrir seinni hluta ársins 2000 (dr tv drama nyt 2. halvår 2000), fer Ingolf Gabold, sem nú er leiklistarstjóri stöðvar­innar, yfir þær gerðir leikins efnis sem deildin framleiðir. Flokkunin gefur prýði­lega hug­mynd um hvernig nágrannar okkar og frændur, sem eru með fullvaxna fram­leiðslu, kjósa að skipa leiknu efni sínu og skilgreina það. Ingolf Gabold flokkar og raðar efninu á eftirfar­andi hátt:

Dramaföljeton hefur nútíðina að viðfangsefni. Um er að ræða þáttaröð þar sem lengd hverrar myndar er 30 til 60 mínútur. Teknir eru upp að minnsta kosti 13 þættir í lotu þar sem sömu aðalpersónurnar birtast. Ýmist er farin sú leið að hver þáttur hefur ákveðinn sögu­þráð með upphaf, miðju og endi eða þá að persónurnar eru þróaðar í samhangandi atburða­rás með einni aðalsögu og minni hliðarsögum.

Í dramady-seríunni er skemmtileg og lífleg atburðarrás í 30 mínútna þáttum þar sem sögu­þráðurinn er samfelldur.

Í gamanþáttaröðinni segir Ingolf Gabold viðfangsefnið vera að endurnýja og hvessa hinn danska alþýðugamanleik. Þetta er gert í að minnsta kosti 13 þátta syrpum þar sem þættirnir eru 30 mínútur að lengd og hafa hver um sig sjálfstæða atburðarrás.

Til viðbótar þessu koma stuttar þáttaraðir og sjónvarpsmyndir þar sem höfundar og leik­stjórar nýta sérstöðu sjónvarpsmiðilsins í innihaldi, formi og tjáningu. Innan þessa ramma eru danskir áhorfendur kynntir fyrir sögulegum verkum sem styrkja þjóðarvitund þeirra og fá þá til að horfast í augu við eigin fortíð.

Danska sjónvarpið lítur á upptökur af leiksviði sem lið í þjónustu við áhorfendur sína. Við þessar upptökur er stundum farin sú leið að taka upp beint af sviði með áhorfendur í sal. Þá gerist það einnig að sviðsverk eru aðlöguð sjónvarpsmiðlinum. Með þessum hætti eru áhorf­endurnir ekki aðeins kynntir fyrir nýjum dönskum leikverkum heldur einnig sígildum leikverkum. Sviðsuppfærslurnar eru teknar upp á leiksviðinu. Aðlöguð verk eru færð upp í myndveri með mörgum kvikmyndatökuvélum.

Í leiklistardeildinni starfar ritstjórn sem einbeitir sér að þessari bræðingsgrein og reynir að þróa hana. Vaxandi áhersla hefur verið á hið sjónræna í uppfærslum þessum. Gamal­dags upptökur með leikurum sem leika of ýkt fyrir lítinn sjónvarpsskjáinn heyra sögunni til.

Danmarks Radio á til viðbótar þessu þátt í samstarfi norrænna sjónvarpsstöðva og er meðframleiðandi í ýmsum norrænum leiknum verkum með einni eða fleiri Norðurlanda­þjóð. Markmiðið með því starfi er, að sögn Ingolfs Gabold, að efla skilning á norrænni menn­ingu. Önnur rök sem norrænar sjónvarpsstöðvar hafa fyrir þessu samstarfi eru sam­legðaráhrifin sem skapast geta ef verið er að framleiða verk fyrir stærri hluta hins norræna markaðar en eitt land.

Danmarks Radio á jafnframt þessu samstarf við Kvikmyndastofnun Danmerkur um að framleiða ýmsar danskar bíómyndir. Stöðin á einnig, ásamt dönsku sjónvarpsstöðinni TV2, aðild að dönskum stuttmyndasjóði: Dansk novellefilm.


II. Leikið efni í íslensku sjónvarpi

Staðan á Íslandi – sagan og þróunin

Leikið efni í íslensku sjónvarpi hefur aldrei náð því umfangi, eða sú staðfesta verið í fram­leiðslu þess, að hægt sé að flokka það á svipaðan hátt og gert er í nágranna­lönd­unum. Mest hefur borið á stökum sjónvarpsmyndum. Nokkrar atrennur hafa þó verið teknar að gaman­þáttaröðum og er Fornbókabúð Stöðvar tvö sú nýjasta, stærsta og sam­felldasta. Þrátt fyrir að framleiðslan hafi verið í rykkjum er íslensk sjónvarpsframleiðsla á leiknu efni frá upp­hafi orðin nokkuð mikil að vöxtum ef allt er lagt saman.

Í Ársskýrslu Ríkisútvarpsins 1976 er farið yfir framleiðsluna fyrstu 10 árin. Þar segir:

Þegar undirbúningur að íslensku sjónvarpi hófst var ekki búist við, að það mundi hafa bolmagn til leikritagerðar á eigin spýtur, a. m. k. fyrstu árin, og þá 3 mánuði, sem Sjónvarpið starfaði á árinu 1966, var ekki aðhafst í því efni. En snemma var tekið að þreifa fyrir sér um þetta, þótt varlega væri farið í upphafi, og á fyrsta heila starfs­ári Sjónvarpsins, 1967, voru sýnd tvö leikrit, tekin upp í sjónvarpssal, en að vísu þangað komin af leiksviði.

Í BA ritgerð Ólafs J. Engilbertssonar Leikmyndlist á Íslandi 1950 – 2000 segir að fyrsta leikritið sem tekið var upp í Sjónvarpinu hafi verið Jón gamli. Verkið var tekið upp 1967. Jón gamli er eftir Matthías Johannessen og var þetta uppfærsla Þjóðleikhússins í leik­stjórn Benedikts Árnasonar.

Áður en hálft annað ár var liðið frá því að sjónvarpsútsending hófst á Íslandi var fyrsta íslenska verkið sem gert var sérstaklega fyrir sjónvarp frumsýnt. Þetta var Romm handa Rósalind eftir Jökul Jakobsson. Þetta ár var einnig tekin upp og sýnd fyrsta óperan, sem var stærsta viðfangsefni Sjónvarpsins fram að þeim tíma. Þetta var óperan Amahl og nætur­gestirnir. Verkefnin sem tekin voru upp árið 1968 voru átta. Flest þeirra voru þýdd smáleik­rit en tvö þeirra voru íslensk.

Árið 1969 voru einnig tekin upp átta verk í sjónvarpinu. Eitt þeirra, Jón í Brauðhúsum, var nýtt og fimm voru eftir íslenska höfunda. Meðal verkanna voru Maður og kona og Hrólfur. Á árunum fram til 1976 voru um átta verk tekin upp árlega í sjónvarpinu þannig að segja má að hægt hafi verið að frumsýna eitt verk á mánuði á vetrardagskrá. Allan þennan tíma var hluti verkanna sem upp voru tekin eftir erlenda höfunda.

Frá stofnun Sjónvarpsins og fram til 1976 voru tekin upp 51 íslenskt verk og 21 erlent. Innan um komu mjög góð ár eins og 1971 þegar leikin verk sem tekin voru upp á árinu voru níu og öll íslensk.

Þegar litið er yfir þau leiknu verk sem sýnd voru í sjónvarpi fyrstu árin má sjá að talsverð áhersla var lögð á að taka upp það sem stjórnendur Sjónvarpsins töldu til sígildra íslenskra leikbókmennta. Þá voru einnig tekin upp verk byggð á þekktum bók­mennta­verkum. Ein­göngu var um að ræða stakar myndir og í öllum tilvikum var metnaður talsverður.

Ólafur J. Engilbertsson segir í B.A. ritgerð sinni Leikmyndlist á Íslandi 1950 – 2000:

Meðal helstu frumuppfærslna Sjónvarpsins fyrstu árin má nefna Jón í Brauðhúsum (1969) eftir Halldór Laxness í leikstjórn Baldvins Halldórssonar; Apaspil (1970), barna­óperu eftir Þorkel Sigurbjörnsson; Einleik á ritvél (1970) eftir Gísla J. Ástþórsson í leik­stjórn Baldvins Halldórssonar; Skeggjaðan engil (1970) eftir Magnús Jónsson og í leik­stjórn hans; Galdra-Loft (1970) eftir Jóhann Sigurjónsson í leikstjórn Sveins Einars­sonar; Baráttusætið (1971) eftir Agnar Þórðarson í leikstjórn Gísla Alfreðssonar; Krist­rúnu í Hamravík (1971) eftir Guðmund G. Hagalín í leikstjórn Baldvins Halldórs­sonar; Í Skálholti (1971) eftir Guðmund Kamban í leikstjórn Baldvins Halldórssonar; Frost­rósir (1970) eftir Jökul Jakobsson í leikstjórn Péturs Einarssonar og Amalíu (1970) og Postulín (1971) eftir Odd Björnsson í leikstjórn Gísla Alfreðssonar. (bls. 79-80)

Ólafur heldur áfram í ritgerð sinni:

Hér eru aðeins tiltekin örfá dæmi og má ljóst vera að þessi gífurlega framleiðsla leikins efnis inn á þorra heimila í landinu breytti á örskömmum tíma myndrænni skynjun þjóð­arinnar. (bls. 80)

Í viðtali sem Ólafur J. Engilbertsson átti við Björn G. Björnsson í tengslum við framan­nefnda B. A. ritgerð sína sem Ólafur birtir í Viðauka II í ritgerðinni talar Björn um upp­hafs­ár Sjónvarpsins. Björn segir meðal annars í viðtalinu:

Mig grunar að menningarelítan hér hafi verið á móti Sjónvarpinu sem slíku og það hafi e.t.v. orðið þess valdandi að listafólk sóttist ekki eftir því að vinna þar eða tileinka sér þennan nýja miðil í nægilegum mæli. Óttinn við ameríkaníseringu réði þar einhverju og eins vissi enginn hvernig þessi tilraun með íslenskt sjónvarp myndi pluma sig. Fáir höfðu nokkra reynslu af að vinna við sjónvarp eða kvikmyndir. Hér var engin kvik­mynda­gerð sem hafði alið upp fagfólk. Raunin varð þveröfug; Sjónvarpið ól upp fagfólk fyrir kvikmyndirnar. Danmarks Radio gat t.d. valið úr kvikmyndageiranum þegar sjón­varp hófst þar. Því var ekki að heilsa hér. (bls. 105-106)

Brekkukotsannál I – II, kvikmynd eftir sögu Halldórs Laxness, var gerð í samvinnu við norður-þýska, norska, danska og sænska sjónvarpið. Handritsgerð og leikstjórn var í höndum Rolf Hädrich. Þetta verk telur Björn G. Björnsson að hafi valdið vatnaskilum.

Brekkukotsannáll var svo tekinn upp sumarið 1972. Frumkvæðið kom frá Hamborg, en Sjónvarpið og allar sjónvarpsstöðvar Norðurlanda tóku þátt í framleiðslunni. Upp­tökur stóðu frá apríl og fram í október. Brekkukotsannáll olli straumhvörfum hér í kvikmynda­gerð. Menn fóru að sjá að hægt væri að gera íslenskar myndir og meira fór að verða um kvikmyndagerð hér. Lénharður fógeti var tekinn upp 1974 (bls. 107)

Björn segir ennfremur að um líkt leyti og hann hætti hjá Sjónvarpinu árið 1976 hafi margir hætt hjá Sjónvarpinu og lagt drög að kvikmyndavorinu 1979 með stofnun sjálf­stæðra fyrir­tækja í kvikmyndagerð.

Flestir geta verið sammála um að tilraunir til að koma á legg kröftugri framleiðslu leikins sjónvarpsefnis hafa alls ekki tekist þrátt fyrir að elsta innlenda sjónvarpsstöðin sé 35 ára og leikin íslensk verk séu orðin talsvert mörg þegar allt er lagt saman. Hér var varla nokkur hefð í gerð kvikmynda, hvað þá leikins sjónvarpsefnis, þegar íslenskt sjón­varp var stofnað. Sá grunnur var lagður í upphafi að sjónvarpið væri miðill fyrir stök og jafn­vel framsækin leikverk og hafa verk af þeirri tegund orðið óþarflega áberandi. Engin veru­leg stemmning hefur nokkru sinni orðið fyrir því að hleypa af stokkunum vönduðum leiknum afþreyingar­verkum í stórum stíl. Þannig hefur aldrei tekist að ná breidd í framleiðsluna. Peningar hafa alltaf verið það takmarkaðir að ekki hefur verið unnt að framleiða samhliða vandað leikið sjónvarpsefni á einfaldan hátt og jafnframt að gera stök sjónvarpsverk þar sem meira fé væri lagt í framleiðsluna.

Þróunin í gerð leikins sjónvarpsefnis á Íslandi

Sjónvarpið gekk inn í samstarf leiklistardeilda Norrænna ríkissjónvarpsstöðva árið 1971. Á þessum tíma skiptust stöðvarnar á efni. Þannig fékk íslenska sjónvarpið til sýn­inga mörg norræn verk á viðráðanlegum kjörum. Skilyrði hinna stöðvanna fyrir þessum samn­ingi var að íslenska Sjónvarpið framleiddi nokkuð reglulega íslensk sjónvarpsverk sem þau fengju í skiptum.

Í Ársskýrslu Ríkisútvarpsins fyrir árið 1976 er kvartað yfir því að verulegur misbrestur hafi orðið á að Sjónvarpið hafi getað staðið við sinn hluta á árinu sem sýnir að frá upp­hafi hefur verið erfitt að tryggja fast framlag til einstakra liða í gerð íslensks sjónvarps­efnis.

Sjálfstæð leiklistardeild hefur aldrei starfað við Sjónvarpið. Í stórum dráttum hefur það því mótast af viðhorfum hvers dagskrárstjóra, afkomu Ríkisútvarpsins í heild og skipt­ingu á milli deilda þess, hver áhersla hefur verið lögð á framleiðslu leikinna mynda.

Af yfirliti sem birtist í Ársskýrslu Ríkisútvarpsins fyrir árið 1976 má sjá að leiklistar­fram­leiðslan var mjög öflug fyrstu árin miðað við það sem síðar varð. Ef hún hefði þróast eðli­lega og samhengi verið í framleiðslunni hefði mátt búast við að í dag væri hún að minnsta kosti þokkaleg og að staðan í gerð leikinna sjónvarpsverka væri að ein­hverju leyti sambæri­leg við íslensk leikhús og kvikmyndir. Svo er ekki. Gerð þessa efnis hefur aldrei farið á flug.

Sú stefna Sjónvarpsins í upphafi að gera stakar, oft framsæknar og tiltölulega dýrar sjón­varps­myndir er vafalaust ein af ástæðunum fyrir því að þróunin hefur ekki orðið jákvæðari í gerð leikins íslensks sjónvarpsefnis. Önnur ástæða er að Sjónvarpið hefur nú minna fé til umráða. Að sögn Bjarna Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Sjónvarpsins varð 20% sam­dráttur í því fé sem Sjónvarpið hefur til dagskrárgerðar á árabilinu 1991 til 2001. Samdrátt­ur í gerð innlends efnis er einnig að nokkru leyti sprottinn af kröfum um lengri dagskrá og meira og dýrara íþróttaefni með tilkomu fleiri innlendra stöðva. Sveiflur í afkomu hafa einnig valdið því að erfitt hefur verið að gera langtímaáætlanir um framleiðslu leikins íslensks efnis.

Staða Stöðvar 2 og Skjáseins á hinum örsmáa íslenska markaði hlýtur alltaf að vera mjög þröng. Stöðvarnar eru einkafyrirtæki, rekin til að skila hagnaði. Þegar forvígis­menn þeirra meta hvernig dagskrárfé þeirra til innlendrar dagskrár er best varið leita þeir eðlilega ekki í dýrasta efni sem hægt er að framleiða. Reynslan hefur vissulega sýnt að vel heppnað leikið efni skilar mörgum áhorfendum en hinn agnarsmái íslenski markaður ber ekki kostnaðinn.

Þrátt fyrir að innlend leikin framleiðsla hafi aldrei farið á flug hafa ýmsar athyglisverðar til­raunir verið gerðar og eftirminnilegar sjónvarpsmyndir verið framleiddar. Eitt aðals­merki og aðalsérkenni í framleiðslu sjónvarps, leiknar þáttaraðir, hafa þó sjaldan sést og enn sjaldnar heppnast vel. Meðal skárri tilrauna af þeim toga má nefna: Undir sama þaki, eftir Björn Björnsson, Egil Eðvarðsson og Hrafn Gunnlaugsson, Sigla himin fley eftir Þráin Bertels­son og í leikstjórn hans og Fornbókabúðina, eftir Guðmund Ólafsson, gaman­þátta­röð í 16 þáttum sem Stöð 2 lét framleiða og sýndi í lok tíunda áratugar síðustu aldar.

Ein ástæða þess til viðbótar að ekki hefur tekist vel til við gerð leikins sjónvarpsefnis hér­lendis er að aldrei hefur náðst sátt um hvaða leiðir ætti að fara. Einhverrar togstreitu gætir um hvort metnaður stöðvanna á að vera að gera vandað afþreyingarefni eða stakar myndir og enginn hefur haft bolmagn til að gera hvort tveggja. Til viðbótar hefur gjarnan verið deilt um upptökuaðferðir. Sumum þykir sem ekkert gott komi út úr upp­tökum með mörgum vélum samtímis í myndveri eins og sápur og gamanþáttaraðir eru gjarnan unnar.

Allir eru sammála um að undirstaða framfara í gerð leikins íslensks sjónvarpsefnis sé að því sé sinnt sérstaklega, meira fé sé varið til gerðar þess og umfram allt, að meira fé, tíma og fyrirhöfn sé varið í að þróa handrit. Þetta hefur ekki enn gengið eftir. Ekkert sam­stætt átak hefur enn verið gert í handritsþróun. Upphæðin sem handritshöfundar fá, sam­kvæmt samn­ingi Rithöfundasambands Íslands, fyrir sjónvarpshandrit er ekki sérlega há. Það verður til þess að handritsskrif fyrir sjónvarp, sem gjarnan fá hastarlega útreið, verða ekki sérlega fýsi­leg. Atriði sem nefna má til viðbótar er að umsjón með gerð leikins sjónvarpsefnis hefur aldrei verið meginviðfangsefni einhvers ákveðins einstakl­ings eða deildar innan íslenskra sjónvarpsstöðva heldur eitt af mörgum verkefnum dag­skrár­stjóra stöðvanna.

Ef við skoðum stöðu íslenskrar leikritunar og kvikmynda til samanburðar eru aðstæður þar aðrar. Íslenskir framleiðendur hafa í hendi sinni að leggja áherslu á handritsgerðina með því að verja hlutfallslega meira fé í handritsþróun. Þá hefur þörfin fyrir erlent sam­fram­leiðslufé leitt til þess að íslenskir framleiðendur fá jákvætt aðhald frá erlendum sam­framleiðendum varðandi handritsvinnuna. Þetta, ásamt efldu styrkjakerfi, hefur leitt til þess að staða íslenskra kvikmynda er allt önnur og betri í dag en staða leikins sjón­varpsefnis. Meðal íslenskra kvikmyndafyrirtækja er því kunnátta til að vinna að upp­bygg­ingu íslenskra leik­inna sjónvarpsverka ef aukið fé fæst til framleiðslunnar.

Stöð 2 og leikna efnið

Framleiðsla Stöðvar 2 á leiknu íslensku sjónvarpsefni hefur ekki verið mikil í gegnum tíð­ina. Heilsubælið í Gervahverfi, sem stöðin hefur sýnt nokkrum sinnum á undan­förnum árum, er sennilega þekktasta framleiðslan. Þá má nefna gamanþáttaröðina Forn­bóka­búðina sem dæmi um viðleitni til að framleiða þáttaröð fyrir sjónvarp þar sem hugsað er til langs tíma. Þrátt fyrir að Fornbókabúðin hafi aldrei orðið gríðarlega vinsæl höfum við Íslendingar með henni sennilega helst nálgast það að búa til vönduð leikin sjón­varps­verk í stórum stíl sem höfða til breiðs áhorfendahóps hliðstætt því sem gerist við erlendar stöðvar.

Hermann Hermannsson, sjónvarpsstjóri stöðva Norðurljósa, hefur velt gerð leikins sjón­varps­efnis fyrir sér og telur ólíklegt að mikið verði gert af því á næstunni þar á bæ. Hann bendir á að Stöð 2 byggir afkomu sína á áskrifendum sem sýna stöðinni tryggð. Til þess að fá þessa tryggð telur hann mun vænlegri leið að setja það fé, sem stöðin ákveður að verja til innlendrar dagskrárgerðar, í innlendar þáttaraðir á borð við Sex í Reykja­vík og heilsu­syrp­una Hver lífsins þraut, svo dæmi séu tekin. Hann segir að stöðvar Norðurljósa séu að hverfa frá stökum, dýrum og stórum verkum og muni ein­beita sér að umfangsminni heimildaþátta­röðum.

Hermann bendir á að Stöð 2 framleiddi 16 þætti af gamanþáttaröðinni Fornbókabúðinni sem er einstakt hvað snertir samfellu í íslensku sjónvarpi. Hann segir að miðað við óbreytt ástand séu engin áform um að framleiða leikið efni hjá Norðurljósum í þeim skiln­ingi sem aðallega er til umfjöllunar í þessari skýrslu. Eins og fram kemur hér að framan hafa Fóst­bræður, þættir með leiknum gamanatriðum, gerðir af Stöð 2, fengið Eddu­verðlaunin í flokknum leikið efni í þau þrjú skipti sem þau hafa verið veitt.

Skjáreinn og leikna efnið

Skjáreinn tók til starfa, í núverandi mynd, þann 20. október 1999. Skjárinn byggir sem kunnugt er einungis á auglýsingum og kostun. Þrátt fyrir þetta hefur stöðin framleitt tveggja þátta leikna röð sem jafnframt voru fyrstu erótísku leiknu sjónvarps­mynda­þætt­irnir í íslensku sjónvarpi. Stöðin reyndi einnig fyrir sér með gerð stuttra leikþátta undir nafn­inu Konfekt sem sendir voru út í beinni útsendingu og sviðsettir vítt og breitt í Reykja­vík. Ekki eru nein sérstök áform að sinni um framhald í gerð leikins efnis á Skjánum.

Sjónvarpið og leikna efnið

Sjónvarpið er sú íslensk sjónvarpsstöð sem helst ætti að hafa haft burði til að framleiða inn­lent leikið efni. Þar hefur frá stofnun fyrir rúmlega 35 árum nánast ár hvert verið fram­leitt leikið efni. Magnið hefur þó verið mjög misjafnt milli ára.

Sjónvarpið hefur einnig tekið þátt í norrænu samstarfi um gerð leikins efnis innan Nord­vision frá 1971, eins og getið var hér að framan. Þar er þó ekki lengur um skiptimarkað að ræða heldur hittast yfirmenn leiklistardeildanna á fundum tvisvar á ári og halda símafundi þess á milli þar sem þeir kynna hver öðrum starfsemina og efna eftir atvikum til samstarfs um gerð leikinna mynda.

Markús Örn Antonsson, útvarpsstjóri, hefur þetta að segja um íslenska leiklistarstarf­semi Ríkisútvarpsins í framtíðarsýn þeirri er hann kynnti í byrjun ársins 2001:

RÚV hefur gert marga athyglisverða hluti á þessu sviði en vill þróa leikstarfsemi í sjón­varpi frekar með því annars vegar að fjölga þáttum og hins vegar með því að leggja meira í einstaka þætti. (bls. 3)

Þegar Markús er spurður um leikið íslenskt efni segir hann það vera ofarlega á baugi. Meðal annars hafi veturinn 2001 - 2002 verið sýnd 12 – 14 leikin verk. Hann bendir líka á að Sjónvarpið kaupi íslenskar kvikmyndir og að segja megi að öll tilbrigði séu til í samn­ingum við kvikmyndagerðarmenn. Forkaup séu algengust en einnig þekkist að gerðir sé nokkurs konar pakkasamningar um kaup á höfundarverki íslenskra kvik­mynda­gerðar­manna. Þess má geta í þessu samhengi að það verð sem íslenskar sjón­varps­stöðvar greiða fyrir hverja kvikmynd sem þær kaupa nemur um 4 – 5 milljónum sem þýðir að mínútuverð þeirra miðað við frumframleitt leikið, innlent sjónvarpsefni er afar hagstætt.

Markús segir að Sjónvarpið hafi ákveðnar skyldur um að geta sýnt þá arfleifð sem við eigum í kvikmyndum okkar. Sjónvarpið hefur á undanförnum árum gert sýningar­samning vegna stórs hluta íslenskra kvikmynda. Stöð 2 hefur þó einnig látið að sér kveða á þeim vett­vangi.

Markús bendir jafnframt á að leikið íslenskt efni sé mjög dýrt og að ekki sé hægt að eyða verulega stórum hluta þess fjár sem Sjónvarpið hefur til innlendrar dagskrár í sára­fá og kostnaðarsöm verk. Framleiða þurfi og kaupa vandað efni sem gefi viðunandi fjölda dag­skrármínútna. Þróunin hafi verið sú að það sé alltaf verið að lengja dagskrána. Það sé ekki sanngjarnt að tala alltaf um prósentuhluta innlends efnis í sífellt lengri dag­skrá Sjónvarps­ins því þá sé verið að láta líta út sem að framleiðslan sé alltaf að minnka. Hann segir að gríðarleg aukning hafi orðið í framleiðslu innlends efnis. Þannig hafi orðið þreföldun á tímabilinu 1985 – 2000. Framleiðslan hafi farið úr 500 í 1500 tíma.

Markús segir enn fremur að áhersla hafi færst yfir á íslenskar kvikmyndir. Hún sé ekki lengur sú sama á sérunnin verk innan Sjónvarpsins og áður. Þetta er athugun sem vert er að gefa gaum að. Þegar Sjónvarpið hóf göngu sína var engin innlend kvikmyndafram­leiðsla í gangi. Það að gera íslensk leikin sjónvarpsverk á þeim tíma hafði því enn meira vægi en nú. Á móti má segja að kröfur íslenskra áhorfenda hafi aukist og að erlend sam­keppni hafi harðnað sem geri það enn mikilvægara en nokkru sinni fyrr að framleiða leikið íslenskt sjónvarpsefni sem stenst samjöfnuð við það úrval erlends leikins efnis sem verið er að sýna á íslenskum sjónvarpsstöðvum.

Markús bendir þessu til viðbótar á að skýrslur frá danska ríkissjónvarpinu sýni að áhersla á gerð leikins efnis sem framleitt er sérstaklega fyrir sjónvarp sé nú minni en áður.

Barnaefni Sjónvarpsins – lítið en samfellt

Markús Örn og raunar allir stjórnendur Sjónvarpsins vekja athygli á að samfella sé í fram­leiðslu leikins efnis fyrir börn hjá Sjónvarpinu. Sigríður Ragna Sigurðardóttir, sem er full­trúi barnaefnis á Innlendri dagskrárdeild, hefur haft umsjón með gerð þess um margra ára skeið og segja má að framleiðsla þess sé nú í nokkuð föstum farvegi. Það er jafn­framt eina dæmið um stöðugleika í framleiðslu leikins efnis í íslensku sjónvarpi.

Undanfarin ár hefur Sjónvarpið tekið þátt í bæði norrænu og evrópsku samstarfsverkefni um gerð mynda fyrir börn. Starfsfólk Sjónvarpsins hefur lagt metnað sinn í að fram­leiðsla myndanna verði eins góð og hugsast getur, enda ákveðnar kröfur gerðar til þeirra. Íslensku myndirnar hafa sumar verið sýndar víða um heim og fengið viður­kenningar.

En god historie for de små nefnist norræn þáttaröð, sem Sjónvarpið hefur tekið þátt í frá því að hún hóf göngu sína árið 1983. Alls hafa tólf þáttaraðir verið framleiddar og er sú þrett­ánda í undirbúningi. Myndirnar eru gerðar annað hvert ár. Sjónvarpið hefur hverju sinni framleitt eina 25 mínútna leikna mynd, en hinar norrænu sjónvarpsstöðvarnar innan Nord­vision hafa framleitt þrjár hver fyrir sig. Sjónvarpsstöðvarnar sem þátt eiga í samstarfinu hafa fram til þessa átt þrjá sýningarrétti á öllum myndunum sem orðið hafa til með þessum hætti.

Stuttar leiknar myndir fyrir börn eru framleiddar árlega í samstarfi við EBU-sjónvarps­stöðvarnar. Skipulagið er þannig að hver sjónvarpsstöð framleiðir eina 15 mínútna leikna barnamynd, gengur frá sýningarrétti fyrir hana í þátttökulöndunum og leggur hana síðan inn sem sitt framlag í eins konar pott. Um 10 til 14 stöðvar hafa tekið þátt í framleiðslunni hverju sinni og mega þær allar sýna hverja mynd í pottinum þrisvar. Sjónvarpið hefur tekið þátt í samstarfinu frá 1993.

Þá hefur Sjónvarpið undanfarin ár sýnt jóladagatal. Framleiðsla jóladagatala hófst fyrst árið 1988 hjá Sjónvarpinu. Dagatalið er sýnt frá 1. - 24. desember. Lengd hvers þáttar er um 7 mínútur. Þau ár, sem ekki hefur verið framleitt nýtt jóladagatal hefur eldra dagatal verið endur­sýnt.

Áhugi á samtímaefni

Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sjónvarpsins, segir að mikill áhugi sé á því innan sjónvarpsins að framleiða leikið efni sem endurspegli samtímann betur en það efni sem gert hefur verið. Hann segir að ef við setjum upp kvarða þar sem öðrum megin sé upptaka á leik­riti af fjölum leikhúss, en það eru ódýrustu leiknu verkin sem Sjón­varpið getur boðið, og hinum megin um það bil klukkutíma leikin sjónvarpsmynd, sem er dýrasta leikna efni sem framleitt er í sjónvarpi hérlendis, þá sé Sjónvarpið einhvers staðar nálægt miðju.

Bjarni segir að þeim mun meiri hluti verksins sem unnin sé í myndveri þeim mun ódýrari séu þau. Hann segist þó gjarnan vilja sjá fleiri verk á borð við Daginn í gær og Úr öskunni í eldinn sýnd í sjónvarpi. Hann bendir einnig á þann ramma sem Sjónvarpið starfar innan. Inn­lend dagskrárdeild hefur tæplega 300 milljónir til ráðstöfunar í pen­ing­um árlega til gerðar alls innlends efnis. Bjarni segir að ef Sjónvarpið framleiði til dæmis 40 milljón króna verk sé með því verið að verja um 13,3% af þeim fjármunum sem deildin hefur til umráða. Spurning sé hvort það sé réttlætanlegt gagnvart sjónvarps­áhorfendum. Bjarni segir allar norrænu stöðvarnar vera að lenda í tilvistarkreppu hvað þetta varðar. Hann segir að sjálfstæðir framleiðendur krefjist svo hárra framlaga til sam­fram­leiðslu­verkefna að stöðv­arnar geti ekki forsvarað að setja þá í verkin nema að reyna jafnframt að fá peningana til baka í gegnum innkomu af sýningu í kvikmyndahúsum eða með sölu til annarra landa. Hann segir að töluverð umræða fari nú fram innan Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) um hvort stuðla megi að meiri samframleiðslu. ARD, ZDF og BBC hafi meðal annars verið að skoða möguleika í þessum málum. Bjarni bendir á að vegna greinar 4 og 5 í samningum Evrópusambandsins séu komnar auknar kröfur á sjónvarpsstöðvar um að sýna ákveðið hlutfall evrópsks efnis sem hljóti að örva sam­framleiðslu. EBU sé að skoða mögu­leika á samframleiðslu á milli landa eins og til dæmis Englands, Írlands og Austurríkis og myndir og þáttaraðir hafi verið unnar í sam­vinnu milli landa sem aðild eiga að sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva.

Rúnar Gunnarsson dagskrárstjóri Sjónvarpsins segist vera að fást við leikið efni í sjón­varpi sem sé að mörgu leyti eðlilegt framhald Sunnudagsleikhússins, sem var tilraun til að fram­leiða 20 til 25 mínútna verk sem í flestum tilvikum voru tekin upp í myndveri Sjón­varpsins. Rúnar hefur lagt áherslu á handritsþróun og hefur ráðið sérstakan ráðgjafa til deildarinnar til að vinna með höfundum. Hann vill gera lengri verk en framleidd voru undir nafni Sunnudagsleikhússins en þó einnig innan veggja myndvers.

Rúnar segir að skráður kostnaður við leikið efni hafi verið rúmlega þrjátíu milljónir króna árið 2000 og árið 2001 hafi kostnaður verið rúmlega 61 milljón. Hans mat er að hægt sé að tala um að árlega sé um 40 milljónum varið til gerðar leikins íslensks efnis á Sjón­varpinu.

Hvað varðar kostnað við framleiðslu tekur Rúnar tvö dæmi. Annað er Bjallan eftir Ólaf Hauk Símonarson í leikstjórn Lárusar Ýmis Óskarssonar sem tekið var með mörgum vélum í myndveri. Bjallan var 2 x 45 mínútur og kostaði samtals 10 milljónir í útlögðu fé – en án innri kostnaðar. Annað verk sem tekið var upp með einni tökuvél og bæði í mynd­veri og utan var Úr öskunni í eldinn eftir Kristófer Dignus Pétursson í leikstjórn Óskars Jónassonar. Verkið var 2 x 35 mínútur og kostaði 11.750.000 kr. án innri kostn­aðar. Miðað við þessar tölur er mínútukostnaður við verkin:

 

Mynd

Mínútuverð

Mín.verð m. 75% innri kostn.

Bjallan

111.111 kr.

194.444 kr.

Úr öskunni í eldinn

167.857 kr.

293.750 kr.

 

Áherslur um þessar mundir

Þeir sem nú eru við stjórnvölinn á íslensku sjónvarpsstöðvunum hafa, eins og lesa má hér að framan, allir velt stöðu leikins efnis fyrir sér. Ljóst er að Skjáreinn hyggst ekki fara út í frekari framleiðslu leikins efnis á næstunni enda er um að ræða eitthvert dýrasta efni sem gert er í sjónvarpi. Á Stöð 2 eru viðhorf manna svipuð. Hægt er að fá miklu fleiri verð­mætar innlendar dagskrármínútur með því að framleiða og kaupa skemmti- og heimilda­efni.

Sjónvarpið mun án efa halda áfram framleiðslu leikins efnis en lítilla stökka er þar að vænta fyrir um 40 milljónir sem nægja fyrir um sex klukkustundum árlega ef miðað er við verk á borð við Bjölluna og fjórum klukkustundum ef miðað er við Úr öskunni í eldinn.

Fullyrða má þó að allar íslensku stöðvarnar hefðu áhuga á að auka gerð leikins íslensks efnis ef komast mætti yfir kostnaðarþröskuldinn. Ef til kæmi styrkjakerfi sem ýtti undir fram­leiðslu innlends leikins sjónvarpsefnis og gerði forvígismönnum þessara stöðva auð­veldara fyrir við fjármögnun myndu þær nokkuð örugglega láta að sér kveða á þessum vettvangi. Um áhugann á gerð leikins sjónvarpsefnis vitnar meðal annars sú stað­reynd að Stöð 2 og Sjónvarpið eru aðilar að Norræna kvikmynda- og sjónvarps­sjóðnum og leggja, ásamt Kvikmyndasjóði Íslands og norrænum kvikmyndastofnunum og sjónvarpsstöðvum, fram helming af rekstrarfé hans. Hvorug stöðvanna hefur þó enn fengið úthlutun úr sjóðnum til gerðar leikins íslensks sjónvarpsefnis.


III. Leikið sjónvarpsefni og sjálfstæðir framleiðendur

Sjónvarpið í samvinnu við sjálfstæða kvikmyndaframleiðendur

Sjónvarpið og sjálfstæðir framleiðendur hafa að mörgu leyti átt prýðilega samleið í áhuga á og framleiðslu leikins efnis þó að ekki hafi alltaf allir verið á eitt sáttir um hvaða leið ætti að fara. Sjálfstæðir framleiðendur hafa undanfarin ár verið þeirrar skoðunar að gerð leik­inna mynda og þáttaraða fyrir sjónvarp væri best komin í þeirra höndum þar sem þeir byggju yfir hæfileikum, þekkingu, erlendum samböndum og tækja­búnaði til að framleiða það. Þeim hefur ekki þótt eðlilegt að til dæmis Ríkis­útvarpið væri að keppa við þá um gerð efnis af þessu tagi.

Sjálfstæðir framleiðendur rökstyðja skoðun sína með því að á allra síðustu árum hefur íslenskur kvikmyndaiðnaður verið að stækka vegna aukinna innlendra fjárframlaga. Um leið hafa íslenskir kvikmyndaframleiðendur þurft að sækja meira samframleiðslufé til mynd­anna en þekkist meðal nágrannaþjóðanna. Þetta hefur veitt mikið aðhald við handrits­þróun auk þess sem framleiðendurnir hafa þurft að sýna gríðarlega hörku og útsjónarsemi við að fá erlent fé til landsins. Við það hafa orðið til dýrmæt persónu- og viðskiptasam­bönd. Engin íslensku sjónvarpsstöðvanna, fyrir utan Sjónvarpið, hefur átt í neins konar erlendri samvinnu um gerð leikins sjónvarpsefnis og samvinna Sjónvarpsins hefur aðallega verið fólgin í því að vera meðframleiðandi í norrænum sjónvarps­myndum með því að leggja fram hóflega upphæð til stöku verkefna.

Þar sem framlag að utan hefur numið einhverjum upphæðum hafa íslensku verkefnin verið unnin af sjálfstæðum framleiðendum og leikstýrt af leikstjórum sem getið höfðu sér gott orð fyrir kvikmyndaleikstjórn. Þetta á við um Sigla himin fley sem Þráinn Bertelsson leik­stýrði og Þegar það gerist sem Hrafn Gunnlaugsson leikstýrði og fyrir­tæki hans framleiddi. Þátttakendur með Sjónvarpinu í þessum tilvikum voru flestar eða allar norrænu ríkisstöðv­arn­ar og voru verkin sýnd á öllum Norðurlöndunum.

Hrafn Gunnlaugsson, sem bæði hefur verð dagskrárstjóri Sjónvarps, framkvæmdastjóri Sjónvarps og sjálfstæður framleiðandi hefur til viðbótar þessu gagnrýnt framleiðslu leikins efnis innan veggja Sjónvarpsins með því að segja að Sjónvarpið sé fangi í allt of stórum umbúðum og að verið sé að fylla þessar umbúðir, meðal annars með framleiðslu leikins efnis. Hann segir að hvorki þekkingin á gerð efnisins né besta fólkið til að vinna það sé innan hússins. Hann líkir Sjónvarpinu við bókaútgáfu sem á að reka öfluga ritstjórn en láta prenta í prentsmiðju úti í bæ að undangengnum tilboðum í stað þess að vera að reka eigin prentsmiðju – sem Hrafn líkir myndveri sjónvarpsins við.

Helga Margrét Reykdal starfar hjá Saga Film. Fyrirtækið hefur staðið mjög framarlega meðal íslenskra framleiðenda og framleitt mörg leikin verkefni fyrir Stöð 2 og Sjónvarpið. Helga segir að fyrirtækið hafi gert 16 þætti af Fornbókabúðinni, Hafið, Kæru Jelenu og Konur skelfa fyrir Stöð 2. Fyrir Sjónvarpið gerði Saga Film Daginn í gær, Fjögur hjörtu, Dómínó, Dómsdag og Citizen Cam, fransk-íslenska leikna mynd.

Helga segir að sjónvarpsmyndir séu mjög þungar í framleiðslu. Hvergi sé möguleiki á að sækja fé í handritsþróun eftir að Menningarsjóður útvarpstöðva var lagður niður. Höfundar komi til fyrirtækisins og biðji um fjármagn til þróunar, sem fyrirtækið hafi alls ekki á milli handa, enda er Saga Film einkafyrirtæki rekið til að skila viðunandi hagnaði. Hún segir að um þessar mundir liggi hugmyndir að tveimur leiknum sjónvarps­mynda­röðum hjá Saga Film en spurning sé hvað þau geti gert í því sambandi.

Helga bendir á að í Menningarsjóði útvarpsstöðva virðist hafa verið mjög takmarkað eftir­lit með því hvernig úthlutuðu fé var varið eftir að úthlutun hafði farið fram.

Saga Film er eini sjálfstæði framleiðandinn sem tekið hefur upp leikið íslenskt efni samið sérstaklega fyrir sjónvarp með fjölmyndavélatækni. Þetta voru þættirnir Forn­bóka­búðin. Helga segir að fyrirtækið hafi fengið mjög dýrmæta reynslu í gegnum þá vinnu.

Þróun leikinnar sjónvarpsþáttaraðar – tvær reynslusögur

Tveir íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa á undanförnum árum reynt að hleypa af stokk­unum framleiðslu leikinna þáttaraða. Þetta eru Anna Rögnvaldsdóttir og Svein­björn I. Baldvinsson. Forvitnilegt og upplýsandi getur verið að skoða vinnu þeirra að þessu.

Túndra, kvikmyndafyrirtæki Sveinbjörns I. Baldvinssonar, fékk styrk frá Menningar­sjóði útvarpsstöðva árið 1998 til að gera handrit að sakamálamynd í fjórum þáttum fyrir Sjón­varpið. Forsendur fyrir styrkjum úr Menningarsjóði var vilyrði frá íslenskri sjón­varps­stöð. Sveinbjörn var með slíkt vilyrði frá Sjónvarpinu.

Sveinbjörn hóf í kjölfarið vinnu við skrif handrits sem hlaut nafnið Urðarmáni og vinnu við að afla frekari vilyrða og fjárstuðnings. Hann fékk víkjandi lán frá MEDIA[3] árið 1999 til þróunar verkefnisins. Lánið var veitt með þeim skilyrðum að ef af framleiðslu yrði skyldi féð endurgreitt. Ef ekki tækist að fjármagna myndina skyldi hann endur­greiða fjórðung lánsins. Þriðja reglan, sú að hann skyldi endurgreiða fjórðung fjárins hvort sem myndin færi í framleiðslu eða ekki að tveimur árum liðnum, er þegar kominn til framkvæmda.

Frá því að Sjónvarpið veitti vilyrði sitt hefur Sveinbjörn unnið að því að fá það til samstarfs og afla frekari stuðnings við verkefnið. Hann er nú kominn með samning við RÚV um þátt­töku í framleiðslunni og kaup á verkinu. Jafnframt hafa allar hinar Norrænu ríkisstöðvarnar lýst yfir áhuga á þátttöku í verkefninu og ein þeirra hefur stað­fest þátttöku. Tvö erlend fyrir­tæki, annað í Danmörku og hitt á Bretlandseyjum hafa jafn­framt lýst yfir áhuga á að taka þátt í verkefninu sem meðframleiðendur með fremur litlu en mikilvægu framlagi.

Þar sem Menningarsjóður var lagður niður fljótlega eftir að Sveinbjörn fékk styrk sinn úr honum hefur hann ekki fengið neinn frekari styrk úr innlendum sjóði til framleiðsl­unnar. Sveinbjörn segir að á sínum tíma hafi verið talað um að nýr sjóður myndi leysa Menn­ingar­sjóð af hólmi. Hvað varðar leikið sjónvarpsefni af því tagi sem Sveinbjörn er að vinna brautar­gengi hefur þetta ekki orðið raunin.

Sveinbjörn hefur leitað eftir möguleikum til að fá styrk hérlendis án árangurs. Eftir við­ræður við forráðamenn Kvikmyndasjóðs Íslands ákvað hann að sækja um framleiðslu­styrk til að gera eina kvikmynd og fjóra sakamálaþætti. Í kvikmyndinni yrðu sömu aðal­persónur og í þáttunum. Verkefnið hlaut ekki náð fyrir augum úthlutunarnefndar Kvik­mynda­sjóðs við úthlutun í janúar 2002 og hefur komið fram í viðræðum við fram­kvæmda­stjóra sjóðsins að meginástæða þess hafi verið sú að hér sé fyrst og fremst um sjón­varps­verkefni að ræða.

Túndra hefur möguleika á að sækja um styrk úr Norræna kvikmynda- og sjónvarps­sjóðnum þar sem verkefnið hefur stuðning tveggja sjónvarpsstöðva sem eru aðilar að sjóðnum. Það sem háir verkefninu er þó að það skortir enn talsvert upp á að nægilegt fjármagn hafi fengist á Íslandi til þess að hægt sé að sækja í erlenda sjóði. Erlendir sjóðir á borð við Norræna kvikmynda- og sjónvarpsmyndasjóðinn leggja fyrst og fremst fram fé til fullfjármögn­unar kvikmynda. Forsendur fyrir erlendu fé eru því, eins og Sveinbjörn bendir á, alltaf talsvert fé að heiman.

Anna Rögnvaldsdóttir hefur einnig um nokkurt skeið unnið að þróun leikinnar þátta­raðar. Hún segir sína sögu svona:

Þegar ég var að skrifa fyrstu drögin að sjónvarpsþáttaröðinni, 1997, var alveg ljóst að engin sjónvarpsstöð á Íslandi myndi geta fjármagnað verkefni af þessari stærðar­gráðu (3x50 mín). Stöð 2 virtist leggja alla áherslu á heimildarþáttaraðir og setti ekkert fé í leikið efni. RÚV hafði einhverja peninga sem það vildi setja í leikið efni en ætlaði að nota þá til að framleiða röð af örstuttum (20-30 mín) leikritum í stúdíóinu hjá sér. Ef þessi þáttaröð okkar átti að verða að veruleika þyrfti önnur hvor sjón­varps­stöðvanna að leggja fram fjármagn sem skipti einhverju verulegu máli og síðan þyrfti að afla fjár annars staðar frá.

Verkefnið komst á rekspöl þegar við fengum jákvæðar undirtektir hjá Menningar­sjóði útvarpsstöðva og evrópsku MEDIA-áætluninni. MÚ veitti handritsstyrk og MEDIA víkjandi lán sem nemur 50% af áætluðum kostnaði við handritsgerð og þróun. Til þróunarkostnaðar telst m.a. kostnaðurinn við að fjármagna verkefni erlendis og annað sem ekki telst beint til framleiðslukostnaðar. Í framhaldi af þessu veitti MÚ tvo fram­leiðslustyrki - tvö ár í röð. Samanlagt er um háa upphæð að ræða á mælikvarða sjóðsins (12 miljónir). En þetta er samt minna en 10% af áætluðum fram­leiðslu­kostnaði verkefn­isins.

RÚV ákvað síðan að forkaupa þáttaröðina - þ.e. leggja fjármagn í framleiðsluna gegn því að fá sjónvarpsréttinn á Íslandi í tiltekinn árafjölda - og við það urðu ákveðin kafla­skil. Hefði okkur ekki tekist að selja þáttaröðina á heimaslóðum er ólíklegt að okkur hefði orðið neitt ágengt erlendis. Opinberir sjóðir, til að mynda, gera það að skilyrði að fyrir liggi samningar við 2 eða 3 sjónvarpsstöðvar - jafnvel á 2 ólíkum málsvæðum. Nú höfum við forselt þáttaröðina einni erlendri sjónvarpsstöð og erum í viðræðum við aðra. Og einnig við hugsanlegan samframleiðanda. Í okkar fjár­mögnunaráætlun gerum við ráð fyrir því að Norræni kvikmynda- og sjónvarps­sjóðurinn komi inn með lokafjár­mögn­unina. Áætlunin gerir ráð fyrir að alls komi sjö aðilar að fjármögnuninni og er þá víkjandi lánið frá MEDIA ekki meðtalið.

Fjármögnun kvikmynda- og sjónvarpsefnis snýst um sölu á sýningarrétti. Í rauninni ráð­gerum við núna að framleiða (samtímis) þrjár útgáfur af verkinu til að geta selt sýningarrétt á fleiri en einum vettvangi. Því meira erlent fjármagn þeim mun þyngra verður allt í vöfum. En versti ókosturinn við að hafa mikið af erlendu fjármagni inni í myndinni er sá að fram­leiðendur verða selja allan verðmætasta réttinn fyrirfram - til að eiga fyrir framleiðslunni. Þetta þýðir að möguleikar þeirra á að ná inn ein­hverjum peningum með sölu eftir á eru mjög skertir.

Ástæða fyrir því að forvígismenn Sjónvarpsins hafa ekki haft snarari handtök við að leggja í framleiðslu með þeim Sveinbirni og Önnu verður skiljanlegra ef að er gáð. Hvorugt verk­efnið getur nokkru sinni orðið ódýrara en íslensk kvikmynd. Ef Innlend dagskrárdeild Sjón­varpsins, sem er aðalframleiðandi leikins íslensks efnis fyrir sjón­varp, stæði straum af helmingi kostnaðarins við aðra hvora þáttaröðina væri deildarstjóri Innlendrar dagskrár­deildar að verja að minnsta kosti einum sjötta þeirra fjármuna sem hann hefur til umráða til framleiðslunnar. Með myndarlegri fjármögnun af hálfu fyrir­tækis Önnu eða Sveinbjörns væri þetta hlutfall í hvorri þáttaröð fyrir sig hugsanlega einn áttundi af þeirri upphæð sem Innlend dagskrárdeild Sjónvarpsins hefur nú til umráða árlega til gerðar alls íslensks efnis. Fjármögnun þáttaraðanna gengur því hægt.

Til viðbótar má nefna að miðað við fjármögnunaráætlun í báðum þessum þáttaröðum væri Sjónvarpið að fá efnið á lægri upphæð á mínútuna en ódýrasta efni sem það fram­leiðir sjálft í myndveri. Lengd þáttaraðanna veldur því hins vegar að hluti Sjónvarpsins í fram­leiðslunni verður nokkuð stór hluti af því sem það hefur árlega til framleiðslu alls íslensks efnis. Mín­útu­verðið er lágt en mínúturnar margar.

Stöðvarnar og sjálfstæðir framleiðendur

Flestir ættu að geta verið sammála um að forsendur lífvænlegrar framleiðslu á leiknu inn­lendu sjónvarpsefni eru sómasamlegur rekstrargrundvöllur sjónvarpsstöðva og inn­lendra framleiðslufyrirtækja, samfella í gerð efnis og öflug þróun handrita og fram­leiðsla verkanna.

Gríðarlega mikilvægt er einnig að sátt sé meðal þeirra aðila sem láta sig þessi mál varða, þar með talið forvígismanna sjónvarpsstöðvanna og framleiðenda, um að verið sé að fara skynsamlega leið hvað varðar uppbyggingu efnis og aðferð við framleiðslu þess. Hvað varðar hagkvæmni segjast íslenskir kvikmyndagerðarmenn auðveldlega geta mætt því verði sem Sjónvarpið sjálft er að framleiða efni fyrir. Eins og fram kemur aftar í þessari skýrslu er framleiðsluverð Sjónvarpsins á leiknu efni lægra en þekkist á hinum Norður­löndunum.

Mikilvægt verður að telja að kvikmyndagerðarmenn og sjónvarpsmenn sameinist um leið sem skilar sjónvarpsáhorfendum sem bestu efni sem framleitt er á hagkvæman hátt. Viðhorf þeirra sem stjórna dagskrám sjónvarpsstöðvanna er að fá sem mest út úr þeim fjár­munum sem þeim er treyst fyrir og að fá sem flestar og bestar dagskrármínútur fyrir sem lægsta upphæð.

Enn á byrjunarreit

Eins og fram hefur komið hefur engin þróun orðið í gerð íslenskra sjónvarpsmynda sem heitið getur á ríflega hálfum fjórða áratug.

Ástæðurnar eru margar. Sú upphæð sem farið hefur til gerðar leikins efnis hefur verið mis­jöfn frá ári til árs. Enginn einstaklingur, hvað þá deild, hefur heldur á nokkurri sjón­varps­stöð sinnt því sérstaklega að huga að gerð leikins efnis. Þá hefur aldrei orðið ofan á ein aðferð eða leið til að byggja upp leikið sjónvarpsefni til langframa, til dæmis hjá Sjón­varpinu.

Til viðbótar hefur smæð íslenska markaðarins sennilega ráðið miklu um að fáar atrennur hafa verið teknar að því að framleiða leiknar þáttaraðir á borð við þær sem einkenna fram­leiðslu stærri sjónvarpsstöðva. Þrátt fyrir að mínútuverðið sé jafnvel lægra en á nokkurri annarri frumframleiðslu fyrir sjónvarp, í að minnsta kosti sumum tegundum fram­halds­þátta, verður heildarpakkinn einfaldlega of stór til þess að nokkur íslenskur aðili ráði við hann miðað við núverandi stöðu.

Niðurstaðan hefur því oft orðið um klukkustundar langar og stundum afar framsæknar myndir sem hafa verið hlutfallslega dýrar. Áhorfendur, forvígismenn Sjónvarpsins og kvik­myndagerðarmenn hafa eðlilega gert sömu kröfur til þessa efnis og þess besta sem gerðist annars staðar í heiminum. Þeim kröfum hefur almennt ekki tekist að mæta.

Gagnrýni, bæði frá kvikmyndagerðarmönnum og gagnrýnendum á verk sem sýnd hafa verið í sjónvarpi, hefur verið síst óvægnari en gerst hefur varðandi í íslensk leikverk í leik­húsum og íslenskum kvikmyndum. Gagnrýnendum hefur ekki þótt tiltökumál að skjóta föstum skotum þegar þeir hafa fjallað um leikið sjónvarpsefni.

Átök sjálfstæðra kvikmyndagerðarmanna við Sjónvarpið og stjórnvöld um hvaða stefnu ætti að taka í gerð leikins efnis, hvað ríkisrekin stofnun ætti að gera og hvernig einkarekin fyrirtæki ættu að geta keppt við hana á jafnréttisgrundvelli hefur einnig orðið til þess að hvöss skoðanaskipti hafa oft orðið á opinberum vettvangi um þær leiðir sem farnar hafa verið í sjónvarpi í gerð leikins efnis.

Sjónarmið Sjónvarpsins á bak við að taka upp í myndveri sínu á sumrin er að skynsam­leg­ast hljóti að vera að nýta þá aðstöðu sem best sem til er– eins og til að mynda mynd­verið á sumrin þegar þungi vetrardagskrárinnar hvílir ekki á og myndverið stendur autt og jafnvel fullmannað.

Framleiðsla stakra sjónvarpsverka hefur í stórum dráttum beðið skipbrot. Viður­kenningu hefur skort á gildi þess að gera vandað afþreyingarefni með íslenskan veru­leika í forgrunni. Fjármagn hefur skort til að gera leiknar þáttaraðir með myndarbrag. Ekki hefur enn tekist að framleiða sápu eða gamanþáttaröð sem almenn sátt hefur verið um að væri bæði sóma­samlega skrifuð, skemmtileg og framleidd af metnaði og fag­mennsku.

Það myndi sennilega bæta gengi leikins efnis talsvert ef hægt væri að koma á sátt meðal sjón­varpsstöðva, áhorfenda, gagnrýnenda og sjálfstæðra framleiðenda um langtíma stefnu í þessum málum.

Enn önnur ástæða fyrir því að leikið efni í sjónvarpi hefur ekki náð sér á strik er atgervis­flótti. Björn G. Björnsson bendir á, í viðtali sem vitnað er í framar í þessari saman­tekt, að menningarelítan hafi hafnað Sjónvarpinu í upphafi. Hann tiltekur einnig að allt helsta atgervið hafi horfið frá íslensku sjónvarpi út í íslenska kvikmyndavorið um 1976. Jákvæð hlið á þessu vandamáli er að nú eigum við Íslendingar hóp þjálfaðra kvik­mynda­gerðar­manna sem hafa bæði getið sér nafn og komið sér upp samböndum sem nýst geta við framleiðslu á leiknu íslensku sjónvarpsefni.

Sjálfstæðir framleiðendur búa nú orðið yfir góðri þekkingu á gerð leikins efnis. Um það vitna þær íslensku kvikmyndir sem verið er að framleiða um þessar mundir. Eitt af því sem sjálfstæðir framleiðendur hafa bent á að þeir gætu hugsanlega haft betri tök á að vinna en stöðvarnar er handritsþróunin. Þeir segja að miðað við núverandi samninga sé mjög erfitt að fá boðleg handrit. Höfundar þurfi einfaldlega að inna miklu meiri vinnu af hendi en gert er ráð fyrir í opinberum launatöxtum þeirra. Þessu geti sjálfstæðir fram­leiðendur, sem hafa ákveðið fé til framleiðslunnar, mætt með því að setja hlutfallslega meira í þennan þátt fram­leiðslunnar og leitast við að spara annars staðar.

Til viðbótar þessu má segja að stærstur hluti þeirra erlendu sambanda sem orðin séu til hér­lendis við erlend kvikmyndafyrirtæki og jafnvel sjónvarpsstöðvar séu hjá sjálf­stæðum inn­lendum framleiðendum. Þessi sambönd og það samframleiðslufé sem getur komið í gegnum þau skiptir hina sjálfstæðu framleiðendur miklu. Þeir eru því sennilega í flestum tilvikum mun líklegri til að láta fullreynt í tilraunum til að fá erlenda meðfram­leiðendur að íslenskum leiknum sjónvarpsverkum en innlendir dagskrárstjórar sem hafa alla dagskrána á sinni könnu. Þannig geta þeir fært umtalsvert erlent fé inn í framleiðslu leikins efnis og gera jafnframt erlenda sýningarsamninga sem tryggja að leikna íslenska sjónvarpsefnið skilar land­kynningu í leiðinni.

Hér að framan hefur verið fjallað um leikið efni og möguleika á gerð þess. Komið hefur fram að þetta er eitthvert dýrasta efni sem framleitt er í sjónvarpi. Því hafa menn eðli­lega talið því litla fé sem þeir höfðu til innlendrar dagskrárgerðar væri betur varið í heim­ilda­myndir, dægurmálaþætti og ódýrar þáttaraðir sem er þakklátt efni og við­ráðan­legt peninga­lega. Það er því eðlilegt að varpa fram spurningunni: Eigum við að fram­leiða leikið íslenskt efni eða eigum við að líta svo á að samfélagið sé svo lítið að við getum ekki staðið undir gerð þess?


IV. Hvers vegna á að efla gerð leikins íslensks sjónvarpsefnis?

Hvers vegna leikið efni?

Fleiri en við Íslendingar spyrjum okkur spurningarinnar: Hvers vegna innlent leikið efni? Ingolf Gabold, sem er leiklistarstjóri DR TV-Drama segir um þetta mál:

Aukin alþjóðavæðing kallar á danskt leikið efni. Hinar mörgu erlendu kvikmynda- og sjón­varpsmyndaraðir í fjölmiðlamynd okkar krefjast andsvara. Við viljum sjá leikið efni sem fjallar um okkur sjálf. (DR TV Drama nyt Sæson 2001-2002).

Forveri hans Rumle Hammerich var mikill talsmaður þess að halda uppi öflugri fram­leiðslu dansks leikins sjónvarpsefnis og jafnframt norrænnar samvinnu. Hann sendi í september árið 1997 frá sér hugleiðingu til norrænna starfsfélaga um hvers vegna mikil­vægt væri að fram­leiða leikið efni fyrir sjónvarp. Þar sagði hann meðal annars:

Danir hafa eins og allir aðrir þörf fyrir að spegla tilveru sína í skáldskap. Á okkur dynja einkum amerískar sögur í sjónvarpi og kvikmyndahúsum. Það er sama hversu vel heppnaðar þessar frásagnir eru þær endurspegla aðra lífssýn og aðra menningu en okkar eigin. Þær sýna framandi menningu sem seld er mjög kunnáttusamlega og með miklum tælingarmætti. Og við viljum láta tælast. Við tilbiðjum þessar frásagnir því þær eru svo hrífandi. Við tileinkum okkur hina framandi menningu, tákn hennar og gildi, því við samsömum okkur meira og minna meðvitað með persónunum í þessum sögum. Við stælum sögurnar úr þessari menningu þar til á endanum að við trúum því að við til­heyrum hinni framandi menningu. En samt sem áður sitjum við eftir með tómleikatil­finningu. Okkur líður eins og við séum eftirlíking. Því þessi menning er þrátt fyrir allt ekki okkar. Hún speglar okkur ekki rétt. Hún hittir okkur ekki djúpt í sál okkar. New York er ekki Kaupmannahöfn. Ameríska stéttarþjóð­félagið er ekki velferðarþjóðfélagið Danmörk þrátt fyrir að líkindin séu að verða meiri.

Á hinn bóginn er ekki nóg bara að vera danskur. Menning okkar er ekki sjálfkrafa spenn­andi. Eru sögurnar okkar nógu hrífandi? Hafa danskir höfundar hæfileika til að skilgreina menningu okkar af nákvæmni og á hrífandi hátt. Geta höfundar og leik­stjórar gert leikið efni sem fær okkur til að ræða veruleika okkar? Spurningin er hvort það eru áhorfendur sem hafa svikið danska menningu eða hvort það er fólkið sem ber uppi menninguna: höfundar, leikstjórar og framleiðendur sem hafa svikið áhorfendur.

Það er skylda sagnfræðinganna og blaðamannanna að skrá og lýsa tímunum sem við lifum og það er hlutverk listamannanna að greina samtímann og segja okkur eitthvað um á hvaða leið við erum. Þeir eiga að kasta spjótum inn í framtíðina sem eiga að geta verið vegvísar fyrir okkur hin. Takist þeim það ekki mun menningin sem „skaffar best” verða ofan á.

Þessir dönsku heiðursmenn eiga sér öfluga skoðanabræður á Íslandi. Um leikið efni í sjón­varpi og mikilvægi þess sagði Árni Ibsen:

En hvar er þá allt íslenska leikna efnið? Hvar eru myndirnar um íslenska mennta­skóla­krakka? Hvar eru hinar íslensku sápuóperur? Hvar eru íslensku krimmarnir? Hvar eru íslensku stofukómedíurnar? Hvar eru hinar íslensku framhaldsmyndir, hinir íslensku fram­haldsþættir? Það er margbúið að varpa þessum spurningum fram en enginn orðið til svara. Við höfum heykst á því að framleiða íslenskt efni við alþýðu­skap af eintómu lítillæti og borið fjárskorti við. Hvernig væri nú að snúa dæminu við og segja: „Við höfum ekki efni á að framleiða ekki íslenskt efni.” Það er nefn­ilega ekkert annað en stórbrotin menningarleg hneisa að reka hér hverja „íslensku” sjónvarpsstöðina eftir aðra þar sem uppistaða dagskrár er miðlungsefni frá Bandaríkjunum. Árni Ibsen „Áhorfandinn afruglaður“, Fjölmiðlar, Lesbók Morgunblaðsins, 15. september 2001.

Athyglisvert er að Árni Ibsen telur upp stofukómedíur og framhaldsmyndir. Hann er að lýsa þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að gera vandað leikið afþreyingarefni fyrir sjónvarp.

Fleiri rök má tína til fyrir nauðsyn á íslensku leiknu efni í íslenskum sjónvarpsstöðvum og eru þau bæði menningarleg og efnahagsleg. Hér koma nokkur þeirra:

Menningarleg rök fyrir eflingu leikins íslensks sjónvarpsefnis

-       Ein forsenda þess að þjóðtunga og menning lifi er að Íslendingar fái að fylgjast með íslenskum samtímasögum í sjónvarpi.

-       Erlendum stöðvum fjölgar sífellt. Landsmenn velja menningarheiminn með fjarstýringunni. Okkur vantar íslenska Vini, Frazier, Taggart og Matador.

-       30 – 45% áhorfenda horfa nú á leikið íslenskt sjónvarpsefni sem sýnt er á kjörtíma. Ef framleiðslan er efld mun þessi hópur stækka.

-       Með leiknum innlendum sjónvarpsmyndum í háum gæðaflokki fær lands­byggðin fyrsta flokks íslenska leiklist inn í stofuna hjá sér og situr menningar­lega við sama borð og íbúar höfuðborgarsvæðisins.

-       Það hefur ótvírætt uppeldisgildi og treystir íslenska menningu ef ungir Íslendingar alast upp við leikið íslenskt sjónvarpsefni sem stenst á allan hátt sam­jöfnuð við það erlenda leikna efni sem sjónvarpsstöðvarnar sýna oft á dag.

Efnahagsleg rök fyrir eflingu leikins íslensks sjónvarpsefnis

-       Sjálfstæð íslensk kvikmyndafyrirtæki öðlast styrkari rekstargrundvöll.

-       Aukin framleiðsla á leiknu efni í sjónvarpi skapar vinnu fyrir alla listamenn.

-       Danmarks Radio tókst að rífa upp innlenda framleiðslu leikins efnis í sjónvarpi. Taxi þáttaröðin hefur selst víða um heim. Hliðstæður árangur á Íslandi gæti breytt menningarlegu andrúmslofti hérlendis og eflt orðspor okkar erlendis

-       Öflug framleiðsla mun hvetja íslenska kvikmyndagerðarmenn til að sækja til erlendra stofnana, sjóða og samframleiðenda og auka þannig það fé sem við hefðum til gerðar leikins íslensks sjónvarpsefnis.

-       Allt umhverfi hvað varðar sjónvarpsútsendingar á eftir að breytast á næstu árum. Aukin áhersla á að verja opinberu til framleiðslu innlends leikins efnis fremur en til rekstrar útsendingar er mjög líklega í takt við framtíðarþróun.

-       Framleiðsla af þessari stærðargráðu mun opna leið til útflutnings á íslensku sjónvarps­efni þegar fram líða stundir.

-       Íslensk þáttaröð sem yrði vinsæl erlendis gæti skilað miklu í beinum gjaldeyris­tekjum af auknum ferðamannastraum og jafnframt laðað fleiri kvikmynda­verkefni til landsins.

-       Framleiðsla á íslensku leiknu efni sem stenst samjöfnuð við erlent leikið efni er mikilvæg fyrir íslenska auglýsendur sem vilja ná til stórs hóps íslenskra áhorfenda.

Hlutfall leikins efnis í kvölddagskrá íslensku stöðvanna

Þegar litið er á kvölddagskrá íslensku sjónvarpsstöðvanna má sjá hve gríðarlegar vin­sældir leikins efnis eru og hve stór hlutur þess er í framboði stöðvanna. Leikið efni, sem að lang­mestu leyti eru amerískir þættir og bíómyndir, er áberandi í kvölddagskrá þeirra. Til við­bótar koma svo nokkrir breskir og norrænir þættir, evrópskar bíómyndir og stöku kvik­myndir og sjónvarpsefni frá fjarlægari slóðum. Á hverju kvöldi sýna Sjónvarpið, Stöð 2, Sýn og Skjáreinn að meðaltali samtals um það bil tíu leikna þætti eða myndir á tímabilinu 19:00 – 24:00.

Hið leikna sjónvarpsefni stöðvanna er nánast eingöngu efni sem höfðar til breiðs hóps áhorf­enda: gamanþáttaraðir, lögfræðingaþættir og þættir um morðrannsóknir og sjúkra­hús­líf svo dæmi séu tekin.

Staða leikins íslensks efnis í sjónvarpi miðað við aðrar listgreinar

Athyglisvert getur verið að skoða hvað fjármagni er varið til leikins sjónvarpsefnis miðað við aðra leiklist í landinu. Við skulum líta á fjárlögin í þessu sambandi og skoða framlög til ýmissa listgreina.

 

Fjárlög - Rekstrargrunnur

Reikningur

Fjárlög

Frumvarp

Breyting

Breyting

2000

2001

2002

frá fjárl.

frá reikn.

m.kr.

m.kr.

m.kr.

%

%

Þjóðminjasafn Íslands

164,7

280,8

230,1

-18,1

39,7

Þjóðskjalasafn Íslands

83,9

96,9

115

18,7

37,1

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn

320,8

351,5

378,3

7,6

17,9

Listasafn Einars Jónssonar

8,4

9,4

10,1

7,4

20,2

Listasafn Íslands

73,9

79,7

85,1

6,8

15,2

Blindrabókasafn Íslands

48,6

44,2

50,8

14,9

4,5

Söfn, ýmis framlög

33,9

142,5

36,5

-74,4

7,7

Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður

677,6

424

385

-9,2

-43,2

Ríkisútvarpið

1.776,70

1.625,00

1.905,00

17,2

7,2

Íslenski dansflokkurinn

54,7

58,8

63,3

7,7

15,7

Þjóðleikhús

444

387

446,8

15,5

0,6

Sinfóníuhljómsveit Íslands

181,6

174,8

237,3

35,8

30,7

Menningarsjóður útvarpsstöðva

79,2

0

0

-

-

Menningarsjóður

13,2

13

13

0

-1,5

Höfundarréttargjöld

75,7

64,3

65,3

1,6

-13,7

Listasjóðir

198,9

241,6

246,9

2,2

24,1

Húsafriðunarsjóður

10,8

52

40,5

-22,1

275

Listskreytingasjóður

6,5

8

8

0

23,1

Kvikmyndasjóður

189,2

266,7

323,7

21,4

71,1

Listir, framlög

421,7

372,5

423,4

13,7

0,4

Samtals

4.864,00

4.692,70

5.064,10

7,9

4,1

 

Eins og sjá má var Kvikmyndasjóður með 266,7 milljónir á árinu 2001. Þar af fóru 25 milljónir í stuttmyndir og heimildarmyndir, en slík deild hóf starfsemi í upphafi ársins. Framlög til leikinna bíómynda voru um 165 milljónir. Afgangurinn fór í ýmsa aðra starf­semi, s.s. kynningarmál, framlög til erlendra kvikmyndasjóða, og ekki síst Kvik­mynda­safnið, sem er undir sjóðnum.

Í ár hækkar Kvikmyndasjóður um a.m.k. 55 milljónir, þ.e. fær 25 milljónir til viðbótar í stutt- og heimildarmyndir og 30 milljónir í bíómyndir. Kvikmyndasjóður er því kominn með tæpar 324 milljónir króna til umráða.

Til samanburðar hlýtur Þjóðleikhúsið tæpar 447 milljónir úr ríkissjóði. Borgarleikhús og önnur leikhús hljóta líklega nálægt 300 milljónum í opinberan stuðning, þannig að opin­ber stuðn­ingur við leikhús er líklega um 700 milljónir. Kysu stjórnvöld að setja 300 milljónir árlega í sjón­varpsmyndir væru þau að veita jafnmiklu fé til kvikmynda og sjónvarpsmynda og leikhúss. Þessi upphæð gæti riðið baggamuninn fyrir þróun leikins efnis í íslensku sjónvarpi og íslenska menningu. Haft er eftir Þjóðleikhússtjóra í frétt í DV, miðvikudaginn 24. október 2001 að aðsókn í leikhúsið á ári geti verið á milli 70 og 100 þúsund. Gera má ráð fyrir að fjöldi þeirra sem horfa á vel heppnað leikið efni í sjón­varpi með landsdreifingu á einu kvöldi sé svipaður.

Öflug starfsemi leikhúsanna er að sjálfsögðu ómetanlegur þáttur í að viðhalda og efla íslenska menningu og þar má ekki láta undan síga. Þessi áhorfssamanburður sýnir fyrst og fremst að gott leikið íslenskt sjónvarpsefni getur ekki síður haft mjög jákvæð áhrif á sjálfs­mynd Íslendinga og menningu.


V. Samanburður við grannlöndin

Áherslur á hinum Norðurlöndunum

Eins og fram kom í flokkun frá Danmarks Radio hér að framan á leikinni framleiðslu stöðv­arinnar er framleiðsla hinna norrænu ríkisstöðvanna mun umfangsmeiri en fram­leiðsla Sjón­varpsins. Stöðvarnar eru meðal annars allar með sérstakar leiklistardeildir.

Fulltrúar leiklistardeilda ríkisrekinna stöðva hinna Norðurlandanna: þeirrar dönsku DR, þeirrar norsku NRK, þeirrar sænsku SVT og finnsku YLE, sem hver um sig er merkis­beri í gerð leikins sjónvarpsefnis í sínu landi, féllust á að svara nokkrum spurningum sem gefið gætu hugmynd um hvert vægi leiknar sjónvarpsmyndir hafa í nágranna­löndum okkar.

Leiklistardeild DR, dönsku ríkisstöðvarinnar, hafði rúmlega 1.100 milljónir íslenskra króna til umráða á síðasta ári til gerðar leikins efnis. Við þetta bætist svo eigin aðstaða fyrir­tæk­isins, fast starfsfólk, myndver tæki og fleira.

Af þessari heildarupphæð fóru tæplega 890 milljónir íslenskra króna til gerðar almenns leikins efnis þáttaraða, og þess háttar. Til meðframleiðslu á kvikmyndum fóru rúmlega 120 milljónir íslenskra króna. Ríflega 50 milljónir íslenskra króna fóru til meðfram­leiðslu á stutt­myndum. Í upptöku á verkum af leiksviði hafði stöðin rúmlega 60 milljónir íslenskra króna. Til uppákoma af ýmsu tagi varði deildin svo rúmlega tíu milljónum íslenskra króna.

Leiklistardeild DR framleiddi á síðasta ári tvær langar þáttaraðir. Þær eru Rejseholdet og De udvalgte. Rejseholdet hefur verið sýnd á Stöð 2. Þetta eru 14 þættir sem hver um sig er 58 mínútur að lengd. Þáttaröðin De udvalgte er einn 60 mínútna þáttur og tólf 40 mínútna langir. Af míní-þáttaröðum eru ein sex þátta og er hver þáttur 50 mínútur. Árið 2001 tók DR sex verk af leiksviði og aðlagaði sjónvarpi.

Kostnaður við framleiðslu á verkum hjá DR er mjög mismunandi eftir því hve mikið er í þau lagt. Í Rejseholdet kostar mínútan rúmlega 500 þúsund íslenskra króna. Í De udvalgte kostar hún um það bil 350 þúsund íslenskar krónur. Í míní-þáttaröð kostar hver mínúta á bilinu 700 til tæplega 1200 þúsund íslenskar krónur.

Leiklistardeild DR sækir til viðbótar þessu í þá sjóði sem hún hefur aðgang að. Hún sækir meðal annars um styrki frá Norræna sjónvarpssamvinnusjóðnum (Kabelfonden eins og hann er stundum kallaður). Honum er lýst nánar aftar í þessari skýrslu. DR sækir einnig í Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn, sem einnig sagt er frá aftar í þessari skýrslu. Þá sækir DR í ýmsa þróunarsjóði í tengslum við gagnvirk verkefni.

Um tíundi hluti verkanna sem framleidd eru á vegum leiklistardeildar DR eru gerð af sjálf­stæðum framleiðendum. Við þetta bætast kvikmyndir og stuttmyndir sem eru nánast ein­göngu gerðar af sjálfstæðum framleiðendum.

Við leiklistardeild DR starfa 48 í föstu starfi. Átta til viðbótar eru ráðnir tímabundið. Þá eru 21 lausamaður starfandi við deildina. Sem dæmi um hve mikið fer til sam­framleiðslu hjá deildinni má nefna bæði um 120 milljónir, í íslenskum krónum, sem fara í kvikmyndir og um 50 milljónir, í íslenskum krónum, sem fara í stuttmyndir. DR selur talsvert af efninu sem deildin framleiðir til hinna Norðurlandanna og Evrópu.

Norska ríkissjónvarpsstöðin NRK ver rúmlega 1.100 milljónum íslenskra króna árlega til gerðar leikins efnis. Af þáttaröðum, sem eru 3 – 8 þættir og hver 55 mínútur að lengd, fram­leiddi stöðin 4 tíma á síðasta ári. Deildin framleiddi eina langa röð sem var vikuleg sápa. Það voru 26 þættir og hver um sig var 45 mínútur. Þetta voru í ár 18 klukku­stundir. Þá var framleidd ein gamanþáttaröð sem voru 13 hálftíma þættir eða nálægt 6 klukku­stundir í heild­ina. Framleiðsla á stuttmyndum hefur verið lítil hjá NRK.

Framleiðslukostnaður NRK eru um 850.000 íslenskar krónur mínútan fyrir þáttaraðir, um 370.000 íslenskar krónur mínútan fyrir vikulega sápu, um 360.000 íslenskar krónur mínútan fyrir gamanþáttaraðir og um 100 þúsund íslenskar krónur fyrir mínútuna af leiknum verkum sem tekin eru af leiksviði. Mínútuverðið á stuttmyndum er nálægt 350.000 íslenskar krónur.

NRK sækir fé til Norræna sjónvarpssamvinnusjóðsins og til Norræna kvikmynda- og sjónvarps­sjóðsins. Mjög lítið af framleiðslu leiklistardeildarinnar er unnin af sjálf­stæðum framleiðendum.

Á leiklistardeild NRK starfa 32 manns. NRK samframleiðir mjög lítið annað en þau verk sem stöðin er aðili að í gegnum Norræna sjónvarpssamvinnusjóðinn, sem stjórnað er í gegnum Nordvision, sem er samvinnufélag norrænu ríkissjónvarpsstöðvanna.

NRK selur ekki mikið út fyrir landsteinana af framleiðslu sinni. Nýlega seldi stöðin þó efni til Slóveníu, Danmerkur, Ísrael og Slóvakíu.

NRK ver um 30 milljónum árlega í samframleiðslu á leiknu efni í gegnum Nordvision sam­starf norrænu ríkisstöðvanna.

Sænska ríkissjónvarpsstöðin SVT leggur um 2.280 milljónir íslenskra króna árlega í gerð leikins efnis. Efninu er skipt í gamanþætti sem eru um 7% framleiðslunnar. Barna- og fjölskylduefni er 18%. Dans- og söngvaefni er 2%. Meiri hlutinn, eða um 63%, fara í sjón­varpsmyndir, þáttaraðir og sakamálamyndaraðir. Um 2% af þessari upphæð fara í stutt­myndir en um 5% í bíómyndir. Þróun og sýningarréttir er um 2% þess fjár sem SVT hefur til gerðar leikins efnis á ári.

Sænska ríkissjónvarpið sækir auk þessa um fé í aðra sjóði svo sem Norræna sjón­varps­sam­vinnu­sjóðinn og Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn. Um 24% af framleiðslu SVT er unninn af sjálfstæðum framleiðendum árið 2001 en þetta er breytilegt frá ári til árs.

SVT fiktion, sem annast gerð leikins efnis fyrir allt sænska ríkissjónvarpið, er verkefna­stofnun. Þetta þýðir að enginn er ráðinn hjá leiklistardeildinni. Verkefnastjórar SVT fiktion vinna fyrir deildina en geta líka unnið með öðrum deildum eins og til dæmis þeirri deild SVT sem er ábyrg fyrir skemmtiefni ef því er að skipta. Reynt er að ráða starfs­fólk SVT eins og hægt er til að vinna að leiknu efni á vegum SVT fiktion. Mörg undan­farin ár hafa mjög margir lausráðnir starfsmenn unnið að gerð leikins efnis. Á SVT fiktion eru rúmlega 300 ráðnir en verkefnaráðnir eru rúmlega tvöfalt fleiri.

Finnska ríkissjónvarpið skiptist í stöðvarnar YLE1, YLE2 og FST, en sú síðastnefnda gerir efni á sænsku fyrir sænskumælandi Finna. Ekki tókst að fá uppgefið hve há upp­hæð færi til gerðar leikins efnis hjá stöðinni en á YLE1 er innlend framleiðsla leikins efnis 3% fram­leiðsl­unnar, á YLE2 er þessi prósentuhluti 5%.

Innan finnska ríkissjónvarpsins eru gerðar stakar sjónvarpsmyndir, míní-þáttaraðir í tveimur til tólf hlutum, langar þáttaraðir og gamanþáttaraðir.

Á YLE1, þar sem mestu umsvifin eru í gerð leikins efnis, eru framleiddir um 24,5 tímar af langri þáttaröð, um 10 tímar af míní-þáttaröð og 10 klukkustundir af sjónvarps­myndum á ári. YLE2 leggur mesta áherslu á míní-þáttaraðir, langar þáttaraðir og gaman­þáttaraðir. Í FST er engin innanhúsdeild sem sinnir gerð leiksins efnis. Fram­leiðslan á hennar vegum eru mismunandi greinar leikins efnis fyrir sjónvarp.

Meðalverð á innlendri framleiðslu hjá YLE er nálægt 300.000 íslenskar krónur hver mínúta. Þetta er þó mjög misjafnt eftir því hvað er verið að framleiða.

YLE getur sótt um peninga í Norræna sjónvarpssamvinnusjóðinn og Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn. Stöðin hefur einnig aðgang að innlendum kvikmynda­sjóðum og Evrópu­sambandssjóðum í gegnum sjálfstæða framleiðendur.

Sjálfstæðir framleiðendur gera 44% af framleiðslu YLE1 og 26% af framleiðslu YLE2. Hluti samframleiðslu í því efni sem stöðvarnar gera eru 3% hjá YLE1 og 13% hjá YLE2.

Hjá YLE1 og YLE2 starfa 58 á leiklistardeildum. Finnska ríkissjónvarpið selur ekki mikið af framleiðslunni til annarra landa. Stóri þröskuldurinn, að mati forvígismanna, er þar tungu­málið. YLE er meðframleiðandi í 3 – 5 verkefnum á ári í gegnum Nordvision, sam­vinnu­stofnun norrænu ríkissjónvarpsstöðvanna.

Samanburður framleiðslu Íslendinga og hinna Norðurlandanna

Eins og sést af yfirlitinu hér að framan er framleiðsla á hinum Norðurlöndunum alls staðar í einhverjum farvegi. Þar er efnið framleitt í flokkum á svipaðan hátt og víða um heim þar sem innlent leikið efni er gert fyrir sjónvarp. Stöðvarnar eru með leiklistardeild og svipaða upphæð frá ári til árs sem varið er til gerðar leikins efnis. Þær hafa jafnframt allar mögu­leika á að sækja um styrki til gerðar hins leikna efnis.

Ef við berum stöðu okkar saman við hin Norðurlöndin í kvikmyndagerð og gerð leikrita fyrir svið kemur í ljós að við getum eins og þau státað af innlendum kvikmyndum og leik­ritum sem hafa notið vinsælda og jafnvel öðlast talsverða viðurkenningu utan land­stein­anna. Við stöndum hinum Norðurlöndunum hins vegar langt að baki í gerð leikins efnis til sýninga í sjónvarpi.

Athygli vekur að mínútuverð á framleiðslu leikins sjónvarpsefnis er talsvert lægra hér­lendis en á hinum Norðurlöndunum. Það ætti að geta verið okkur enn frekari hvatning til að sækja fram á þessum vettvangi.

Þegar við Íslendingar viljum koma sérlega vel út grípum við gjarnan til höfðatölu­reglunnar þar sem niðurstaðan er nánast undantekningarlaust okkur í hag. Við skulum til gamans líta á upphæðirnar sem fara í gerð leikins efnis á hverri ríkisstöð fyrir sig og bera saman við íbúafjölda.

 

 

Framlag m.v.

höfðatölu

Íbúafjöldi

Framlag í ISK

Framlag í heimamynt

Gengi

16. febrúar

Sjónvarpið - Ísland

142,9

280.000

40.000.000

40.000.000

 

DR - Danmörk

217,1

5.200.000

1.128.872.328

95.352.000

11,839

NKR - Noregur

257,2

4.400.000

1.131.700.000

100.000.000

11,317

SVT - Svíþjóð

261,0

8.800.000

2.297.040.000

240.000.000

9,571

 

Ef við skoðum þessar tölur nánar kemur í ljós að höfðatölureglan er okkur Íslendingum að þessu sinni, aldrei þessu vant, óhagstæð. Reiknað út frá kostnaði á mann er framlag okkar til leikins sjónvarpsefnis lægst meðal norrænna ríkisstöðva.

DR ver 51,9% meira á hvern einstakling en Sjónvarpið, NKR eyðir 80% meira á hvern einstakling en Sjónvarpið og SVT eyðir 82,7% meira.

Þó að framlag Sjónvarpsins hækkaði og yrði hlutfallslega jafnhátt og það er á hinum Norðurlöndunum væri það samt alls ekki nægilegt til að standa straum af fjölbreytilegri framleiðslu leikins efnis á Íslandi. Nokkuð háa upphæð þarf til þess að hægt sé að framleiða helstu tegundir þess.

Við skulum til gamans stilla upp nokkuð hóflegri en þó fjölbreytilegri framleiðslu leikins efnis í íslensku sjónvarpi. Segjum að framleidd sé á einu ári gamanþáttaröð (12 x 30 mínútur), sápa (12 x 45 mínútur), þrjár þáttaraðir (4x55 mínútur) og átta sjónvarps­myndir (8 x 58 mínútur).

Miðað við lauslega útreikninga með öllum kostnaði inniföldum þar sem miðað er við að gaman­þáttaröðin og sápan kosti það sama á mínútuna og Bjallan og að þáttaröðin og sjón­varpsmyndirnar hafi sama mínútuverð og Úr öskunni í eldinn, samanber tölur Sjón­varpsins hér að framan, lítur dæmið út eins og sést hér að neðan.[4] Nánar verður farið í þessa áætlun aftar í þessari skýrslu og þá meðal annars farið yfir hvaðan þessi hálfi milljarður gæti komið.

 

 

Fjöldi þátta

Lengd í mínútum

Fjöldi mínútna

Mínútuverð

Kostnaður

Gamanþáttaröð

12

30

360

194.444

69.999.840

Sápa

12

45

540

194.444

104.999.760

Þáttaröð (3*4)

12

55

660

293.750

193.875.000

Sjónvarpsmyndir

8

58

464

293.750

136.300.000

 

 

 

2.024

 

505.174.600

 

Erfitt er að bera saman mínútukostnað á Norðurlöndunum. Glögglega má þó sjá að fram­leiðslukostnaður Sjónvarpsins er mjög lágur miðað við framleiðslukostnað hinna norrænu stöðvanna. Framleiðsluaðferðir við Bjölluna, sem kostaði tæplega 200.000 kr. mínútan, eru sambærilegar við gamanþáttaröð hjá Norska sjónvarpinu sem kostar um 340 þúsund íslenskar krónur. Gamanþættirnir norsku eru að vísu miklu fleiri sem þýðir enn frekari möguleika á sparnaði en þegar einungis eru gerðir tveir þættir eins og við á um Bjölluna. Svipað efni kostar að minnsta kosti 350 þúsund íslenskar krónur mínútan hjá Danska sjón­varpinu. Úr öskunni í eldinn sem kostaði tæplega 300.000 kr. mínútan er sennilega að minnsta kosti helmingi ódýrara í framleiðslu en sambærilegt efni á hinum norrænu ríkis­sjónvarpsstöðvunum.

Hvernig starfar fullvaxin leiklistardeild í sjónvarpi?

Danmörk hefur sennilega náð einhverjum besta árangri af öllum Norðurlöndum í gerð kvik­mynda og leikins efnis í sjónvarpi. Danska ríkissjónvarpsstöðin hefur þar verið leiðandi en veturinn 2000 til 2001 buðu þrjár sjónvarpsstöðvar, af fjórum stöðvum Dana með lands­dreifingu, frumgert leikið sjónvarpsefni. TV3 sýndi verkið Skjulte spor, TV2 sýndi Hotellet og DR TV var með sína fjölbreytilegu framleiðslu sem lýst hefur verið hér að framan.

Athyglisvert getur því verið að skoða örlítið nánar hvernig fullvaxin leiklistardeild starfar. Leiklistardeild Danmarks Radio er prýðilegt dæmi. Eins og segir framar í þessari skýrslu starfa 43 fastráðnir á deildinni, 8 eru ráðnir tímabundið og 21 er verkefnaráðinn. Eining­arnar eru þannig byggðar upp að efst er fjögurra manna stjórn sem Ingolf Gabold leik­listarstjóri stýrir. Þá tekur við stjórn þar sem fimm manns starfa að stjórnun, sam­hæf­ingu og eftirliti með fjármálum, þróun þar sem starfa þróunarritari, tveir handrits­ráðgjafar og einn ritstjóri. Næst eru það fimm pródúsentar, deild sem sér um skipulagn­ingu og framleiðslu og síðan fólk sem vinnur við upptöku og eftirvinnslu.

Viðfangsefni deildarinnar er, eins og nánar hefur verið farið í hér að framan, ýmis konar gerðir sjónvarpsmynda. Flokkarnir eru: Dramaföljeton, dramady sería, komedi-sería og stuttar seríur og sjónvarpsmyndir. Þá tekur leiklistardeild DR árlega upp nokkur leikhús­verk, ýmist með því að taka þau nánast óbreytt eða með því að laga uppfærslurnar að sjón­varpsmiðlinum. Til viðbótar þessu sendir deildin út stærri viðburði frá leikhús- og kvik­mynda­heiminum. Deildin gerir einnig þætti sem fjalla til dæmis um atburði sem tengjast leiknu efni sem gefa áhorfendunum mynd af og skilning á aðstæðum leik­listar­innar í Danmörku. Jafnframt þessu tekur deildin þátt í Nordvision samstarfi ríkisreknu sjón­varps­stöðvanna á Norðurlöndunum. Þá er DR til viðbótar þessu að vinna að því að þróa gagn­virka leiklist á Netinu til þess að koma sjónvarpsleiklist einnig fyrir á DR-Online.

Til viðbótar þessu má nefna að DR TV og TV2 sjónvarpsstöðvarnar eiga samvinnu um að styðja með peningaframlögum framleiðslu hinna árlegu lokamynda nemenda við Danska kvikmyndaskólann og fá á móti réttinn á að sýna myndirnar. Þetta verða sex myndir í ár.

DR hefur einnig átt samvinnu við átta leikstjóra og jafnmarga framleiðendur sem bjuggu til sinn eigin kvikmyndaskóla. Stuðningurinn er í formi kennslu og skönnunar á filmu. Þá hefur DR Drama einnig staðið fyrir kennslusamstarfi við Aarhus Teater. (DR TV-Drama som Vækstshus bls. 11 DR TV Drama Nyt Sæson 2001-2002)

Að lokum má nefna að frá því að danski Stuttmyndasjóðurinn var stofnaður hafa Danska kvikmyndastofnunin, DR TV og TV2 átt samstarf um sjóðinn. Afraksturinn eru 66 leiknar myndir. Frumhlutverk sjóðsins er að vera ræktunarstaður eða leikvöllur fyrir það hæfileika­fólk sem stöðin hyggst síðan vinna að margháttuðum verkefnum með í fram­tíðinni. Sjóður­inn hefur það að markmiði að framleiða um það bil 10 myndir á ári og hefur til þess um 280 milljónir í íslenskum krónum. Samstarf DR og TV2 að sjóðnum er með þeim hætti að stöðvarnar frumsýna myndirnar á víxl en hafa annars rétt til að sýna þær á mismunandi stöðum í dag­skrá sinni þar til ákveðnum áhorfendafjölda hefur verið náð.


VI. Styrkir og stuðningur til gerðar leikins sjónvarpsefnis

Viðleitni stjórnvalda til að efla leikið efni í sjónvarpi

Segja má að hjá Sjónvarpinu birtist öflugasta viðleitni íslenska ríkisins til þess að efla gerð íslensks leikins sjónvarpsefnis. Stöðin, sem er í eigu ríkisins, hefur á tímabilum verið eina stöðin sem sinnti gerð leikins efnis. Miðað við óbreytt ástand verður hún áfram ein um hituna. Ekkert bendir til að þessi hluti í starfsemi Sjónvarpsins eigi eftir að aukast. Til skamms tíma styrkti Menningarsjóður útvarpsstöðva einnig gerð leikins sjónvarpsefnis en hann hefur nú verið lagður niður. Menningarsjóður útvarpsstöðva var sem kunnugt er fjár­magnaður með sérstöku menningarsjóðsgjaldi sem lagt var á allar auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi. Af þessu gjaldi var einnig tekinn hlutur Ríkis­útvarpsins af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands áður en til úthlutunar kom úr sjóðnum. Menningarsjóðurinn hafði bolmagn til að veita framleiðslustyrki til gerðar leikins sjónvarpsefnis. Enginn inn­lendur sjóður sinnir nú framleiðslu leikinna íslenskra sjónvarps­mynda.

Til viðbótar því sem að framan er greint hafa íslensk stjórnvöld reynt að bæta skatta­um­hverfi fyrir þá aðila sem framleiða kvikmynda- eða sjónvarpsefni á Íslandi.

Samkvæmt nýlegum lögum er heimilt að endurgreiða úr ríkissjóði 12% af framleiðslu­kostnaði sem til fellur við framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis hér á landi og eftir atvikum í öðru aðildarríki samnings um Evrópska efnahagssvæðið.

Skilyrði er meðal annars að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri og kynna sögu lands og náttúru. Einnig að stofnað sé sérstakt félag um framleiðsluna á Íslandi. Íslenskt útibú eða umboðsskrifstofa félags sem skráð er í aðildar­ríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið telst sérstakt félag. Fram að þessu hafa nokkrar kvikmyndir fullnægt þessum skilyrðum.

Eins og að framan segir sækja allar hinar Norðurlandastöðvarnar í samvinnusjóð sinn og Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn. Þær eiga þess einnig kost að sækja í ein­hverja sjóði með sjálfstæðum framleiðendum. Um þessar mundir er enginn innlendur sjóður til á Íslandi sem hægt er að sækja í um handritsgerð, þróun eða framleiðslu leikins íslensks sjón­varpsefnis. Hugsanlegt er að vísu að fá styrk til að gera handrit að leiknu efni úr rithöfunda­sjóðum. Þá hefur nýstofnaður sjóður til að styrkja stuttmyndir og heimildarmyndir veitt styrk til handritsgerðar og þróunar vegna leikinnar sjónvarps­þátta­raðar.

Kostun er varla fær leið hérlendis til að standa straum af gerð leikins sjónvarpsefnis. Þær upphæðir sem fengist hafa með þeim hætti fram að þessu hafa verið það lágar að þær hrökkva sennilega skammt og skipta litlu máli þegar komið er að því að framleiða jafn dýrt efni og leikið sjónvarpsefni er.

Möguleikar til samvinnu út fyrir landsteinana og aðgangur að fjármagni

Nordvision

Norræn samvinna er sem að framan segir umtalsverð meðal norrænu ríkissjónvarps­stöðv­anna á öllum sviðum. Nordvision er skrifstofa samvinnunnar. Fyrir leiklistardeildir norrænu ríkisstöðvana og raunar einnig aðrar deildir, skipuleggur hún tvo fundi á ári þar sem deildirnar kynna hver annarri með handritum, myndbandsspólum og öðrum leiðum þau áform sem uppi eru um framleiðslu innan deildanna. Á þennan hátt samframleiða stöðv­arnar talsvert af efni.

Norræni sjónvarpssamvinnusjóðurinn

Norræni sjónvarpssamvinnusjóðurinn, sem oft er kallaður Kapalsjóðurinn, er í eigu sjón­varpsstöðvanna fimm sem eru í ríkiseign á Norðurlöndunum: DR, NRK, RÚV, SVT og YLE. Sjóðurinn er fjármagnaður með þeim tekjum sem stöðvarnar hafa af því að efni þeirra er dreift um kapal á norrænum markaði. Nýlega var á Íslandi stofnað samlag sem ber nafnið UBOI sem stendur fyrir Union of Broadcasting Organisations in Iceland. Þetta samlag safnar saman því fé sem fæst fyrir dreifingu norrænna stöðva um íslenska breið­bandið. Þetta þýðir að RÚV á í fyrsta sinn örlítinn tekjustofn í Norræna sjónvarps­sam­vinnu­sjóðnum, auk þess sem hinar norrænu stöðvarnar fá nú einhverja greiðslu í Norræna sjón­varps­samvinnusjóðinn frá Íslandi fyrir útsendingu efnis þeirra á breið­bandinu.

Norræni sjónvarpssamvinnusjóðurinn er rekinn á þann hátt að hver stöð getur sótt um fram­lag til samvinnuverkefna í þá upphæð sem land hennar hefur lagt í sjóðinn. RÚV hefur fram til þessa ekki getað sótt um fé til framleiðslu þar sem stöðin hefur ekki átt neinn stofn í sjóðnum. Kapalsjóðurinn veitir, til viðbótar við framleiðslustyrk, einnig fé til rannsókna og þróunar. Það er eini hluti sjóðsins sem RÚV hefur getað sótt um styrk í. Þessi hluti eru tæp­lega 30 milljónir íslenskra króna árlega.

Árlegar tekjur sjóðsins hafa seinni ár verið um 680 milljónir íslenskra króna. Af því hafa um 500 milljónir íslenskra króna farið til leikins efnis. Því fé sem varið er til dag­skrár­gerðar úr sjóðnum hefur verið skipt á eftirfarandi hátt:

-       Í sænskan hluta sjóðsins renna rúmlega 330 milljónir íslenskra króna og fara um 85% af þeim til leikins efnis.

-       Í danska hlutann renna tæplega 130 milljónir íslenskra króna og fer um helming­ur­inn af þeim í leikið efni.

-       Í norskan hluta renna rúmlega 100 milljónir íslenskra króna og fara um 65% þeirra í leikið efni.

-       Í finnskan hluta sjóðsins fara rúmlega 33 milljónir íslenskra króna og renna 25% þeirra til leikins efnis.

Til viðbótar þessu fara um rúmlega 20 milljónir íslenskra króna af norska og finnska hlut­anum í leikið efni fyrir börn.

RÚV hefur afar litlar tekjur af dreifingu með kapli en nýtur óbeint góðs af fé úr sjóðnum. Þannig hefur SVT sem meðframleiðandi með RÚV stundum sótt fé til fram­leiðslunnar úr sænskum hluta sjóðsins. Til viðbótar þessu hefur RÚV sem fyrr segir jafnan aðgang og hinar stöðvarnar að því fé sem veitt er til rannsókna og þróunar.

Styrkur er almennt einungis veittur úr sjóðnum ef um er að ræða samframleiðslu tveggja eða fleiri af sjónvarpsstöðvunum sem eiga í sjóðnum. Hann hvetur því til samstarfs stöðv­anna. Í þeim tilvikum sem veittur er styrkur til rannsókna og þróunar er nóg að verk­efnið geti mögulega orðið að samframleiðsluverkefni. Því fé sem stöðvarnar veita til sjóðsins er haldið aðskildu og fá þær úthlutað af því. Segja má því að hver stöðvanna hafi sérstakan reikning, með landsframlagi sínu, sem þær geti fengið ávísað útaf að full­nægðum ákveðnum skilyrðum.

Ef um framleiðslustyrk er að ræða verður aðalframleiðandi, sem sjálfur sækir í sjóðinn, að vera með að minnsta kosti 10% í framlag frá öðru aðildarsjónvarpi. Undantekning er ef RÚV eða FST, sem er finnska ríkisstöðin sem sendir út á sænsku, er með. Í þeim til­vikum nægja 2%. Allar stöðvarnar, sem eiga aðild að sjóðnum, geta sótt um fram­leiðslu­styrk í samræmi við hlutdeild sína.

Sjóðurinn veitir fé til þátta eftir norræna höfunda og norræna túlkandi listamenn. Veitt er fé til sjónvarpsefnis á sviði leiklistar, tónlistar og afþreyingar. Þegar um er að ræða rann­sóknir og þróun eru engin efri mörk á því hversu stóran hluta sækja má um. Hægt er einnig að sækja um fullfjármögnun á öllum þessum kostnaði. Þegar um framleiðslustyrk er að ræða er einungis hægt að sækja um helming af þeirri fjárhæð sem hver leggur fram.

Í yfirliti frá framkvæmdastjóra Nordvision árið 1997 segir hann að tilhneiging hafi verið undan­farin ár að fara meira út í samframleiðslu með sjálfstæðum framleiðendum og gera leikið efni sem fyrst er sýnt í kvikmyndahúsum og síðar í sjónvarpi. Hann bendir á að fjár­hagslega sé þetta áhugavert og að það hafi einnig þau áhrif að tryggja breiðari og farsælli notkun á fjármagni og atgerfi.

Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn

Markmið Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins er að efla framleiðslu á hljóð­mynd­rænum (audiovisuelle) verkum á Norðurlöndum með því að taka þátt í heildar­fjár­mögnun á kvikmyndum, leiknum sjónvarpsmyndum, leiknum þáttaröðum í sjónvarpi, stutt­myndum og skapandi heimildarmyndum.

Skilyrði fyrir styrk úr sjóðnum er að myndin henti til sýninga í kvikmyndahúsum, sjón­varpi eða annars konar dreifingar. Verkefnin verða einnig að hafa fullnægjandi markaðs/ aðsókn­ar­mat á Norðurlöndum. Sjóðurinn getur í undantekningartilvikum tekið þátt í fjár­mögnun á verkefnum sem ekki er talið að hafi mikla tekjumöguleika en samræmast að öðru leyti starf­semi Sjóðsins og fullnægja þeim reglum sem gilda um störf hans.

Sjóðurinn á einnig að efla framgang hljóðmyndrænna (audiovisuelle) verka með fram­lögum til verkefnaþróunar, dreifingar, markaðssetningar og þýðingar. Sjóðurinn ráð­stafar jafn­framt fé frá Norrænu ráðherranefndinni sem verja á til dreifingar og menn­ingar­legs fram­taks á sviði kvikmynda (eyrnamerkt fé). Mat á verkefnum er heildarmat á grunni listrænna þátta og innihalds, auk framleiðslu- og markaðsþátta. Að auki er lagt mat á forsendur þess að ráðast í framleiðsluna. Ekki eru gerðar neinar kröfur um sam­norræn viðfangsefni, hlut­deild einstakra þjóða eða kröfur er lúta að samsetningu þess hóps lista- og tæknimanna sem koma að gerð verksins. Í reglum sjóðsins er kveðið á um að sérstakt tillit skuli tekið til verkefna þar sem markhópurinn er börn og unglingar.

Skilyrði fyrir styrkveitingu til leikins efnis í sjónvarpi er samningur um sýningu í sjónvarpi við að minnsta kosti tvær af þeim sjónvarpsstöðvum sem eru aðilar að sjóðnum. (Aðeins við eina ef umsóknin er frá sjónvarpsstöð sem á aðild að sjóðnum.)

Fé sjóðsins kemur að einum þriðja frá Norrænu ráðherranefndinni, að einum þriðja frá kvik­myndastofnunum og að einum þriðja frá sjónvarpsstöðvunum. Það nam árið 2000 rúmlega 750 milljónum íslenskra króna.

Íslendingar hafa ekki enn fengið úthlutun úr Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum til framleiðslu á leiknu sjónvarpsefni. Árið 2000 veitti sjóðurinn um 110 milljónum íslenskra króna til sjónvarpsmyndaraða frá Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð. Ennfremur veitti sjóð­ur­inn tæplega tíu milljónum íslenskra króna í þróunarstyrki til sjónvarps­mynda­raða í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Á árinu 2000 veitti sjóðurinn rúmlega 18 milljónum íslenskra króna til danskra norskra og sænskra stuttmynda en þessar myndir enda oftast í sjónvarpi.

Bæði Stöð 2 og Sjónvarpið eru aðilar að Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum, leggja fram árlega upphæð til rekstrar hans ásamt Kvikmyndasjóði Íslands og geta því sótt um fé í hann.

MEDIA Plús áætlunin og íslenskt leikið sjónvarpsefni

Íslendingar hafa möguleika á að sækja um fé til gerðar leikins sjónvarpsefnis í gegnum MEDIA Plús áætlunina.

MEDIA er, eins og komið hefur fram, skammstöfun á „Measures to Encourage the Development of the European Industry of the Audiovisual Production” sem útleggst á íslensku, átak til eflingar evrópskum kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði. Áætlunin er á vegum Evrópusambandsins. EFTA ríkin Ísland, Noregur og Lichtenstein eiga aðild að áætluninni fyrir tilstilli EES samningsins um hið evrópska efnahagssvæði.

MEDIA II áætluninni er ætlað að styðja við evrópska kvikmyndaiðnaðinn með stuðn­ings­aðgerðum við: menntun, undirbúning verkefna, framleiðslufyrirtæki og dreifingu myndefnis. Þessi stuðningur er yfirleitt í formi styrkja eða vaxtalausra skilyrtra lána.

Einstök verkefni

Hægt er að sækja um styrk fyrir leikið efni (kvikmyndir eða sjónvarp). Aðeins má sækja um eitt verkefni í einu. Ef fyrirtækið fær úthlutun þarf það að skila staðfestu uppgjöri á því hvernig styrknum hefur verið varið. Ef verkefnið fer í framleiðslu þarf að fjárfesta sömu upp­hæð, og veitt var upphaflega í þróun á, í nýju verkefni hjá fyrirtækinu. Ef hins vegar verk­efn­ið fer ekki í framleiðslu falla skyldur fyrirtækisins niður eftir að fjárhagsdeild MEDIA hefur samþykkt uppgjör.

Meðal skilyrða til að geta sótt um styrk er að framleiðslufyrirtækið verður að hafa framleitt og dreift sambærilegu verkefni á síðustu 24 mánuðum. Þó geta fyrirtæki sem framleitt hafa leiknar myndir sótt um undirbúningsstyrk fyrir heimildarmyndir og fyrirtæki sem framleitt hafa teiknimyndir geta sótt um undirbúningsstyrk fyrir marg­miðlunar­verk. Fyrir fyrirtæki sem ekki hafa sótt um síðan snemma árs 1999 nægir að hafa dreift verkefninu innanlands en fyrirtæki sem sóttu um styrk til MEDIA II á seinni hluta ársins 1999 eða síðar verða að hafa dreift verkefninu í a.m.k einu landi utan heima­lands. Reynsla fyrirtækisins er tekin til greina við mat á umsókn sem og reynsla helstu aðstandenda verksins.

Fái verkefni neitun má fyrirtækið sækja aftur um að sex mánuðum liðnum með sama verkefni ef verulegar breytingar hafa átt sér stað á handriti og/eða fjármögnun verksins. Ef verkefnið fær neitun í annað sinn má ekki sækja aftur um styrk fyrir verkefnið. Ef fyrir­tækið vill sækja um annað verkefni, má sækja um einu ári síðar.

Skilyrði fyrir leikið efni er að myndin verður að vera að minnsta kosti 50 mínútna löng. Hægt er að sækja um 20 - 50 þúsund evrur (u. þ. b. 1,8 – 4,5 milljónir íslenskar krónur)

Verkefnapakkar

Hægt er að sækja um tvenns konar verkefnapakka. Fyrirtæki sem ætla að sækja um undir­búningsstyrk fyrir verkefnapakka 1 verða að hafa á síðastliðnum þremur árum framleitt a.m.k. eina mynd sem sýnd hefur verið í að minnsta kosti einu landi utan heima­lands.

Sótt er um undirbúningsstyrk til 3 - 9 verkefna og hægt er að sækja um 60 - 90 þús. evrur (tæpar 5,4 – rúmar 9 milljónir íslenskra króna)

Til þess að geta sótt um verkefnapakka 2 þarf fyrirtækið að uppfylla það skilyrði að hafa fram­leitt minnst tvær myndir sem fengið hafa dreifingu í a.m.k. einu landi utan heima­lands. Við mat á umsókum er tekið tillit til reynslu fyrirtækis og aðstandenda verkefn­anna.

Sótt er um undirbúningsstyrk til 5 - 15 verkefna og hægt er að sækja um 100 - 125 þús. evrur (8,9 – 11,1 milljón íslenskra króna.)

Hvort sem sótt er um pakka 1 eða 2 þá þurfa fyrirtækin að skila mjög ítarlegri umsókn með viðskiptaáætlun til næstu þriggja ára. Þá þarf fyrirtækið að skila inn ársreikningum síðustu tveggja ára, ásamt nákvæmum upplýsingum um þau verk sem fyrirtækið hefur fram­leitt. Ef umsókninni er hafnað, má fyrirtækið sækja aftur um sex mánuðum síðar, ef veru­legar breytingar hafa átt sér stað á verkefninu. Ef umsókn er hafnað í annað sinn má fyrir­tækið sækja um tólf mánuðum síðar.

Stuðningur við dreifingu sjónvarpsefnis

Hægt er að sækja um styrk fyrir allt að 12,5 % af framleiðslukostnaði við leikið sjón­varps­efni (minnst 50 mín. að lengd) (og 20% af framleiðslukostnaði fyrir heimildar­myndir). Meðal skilyrða er að þegar sótt er um verður að vera komin 50% fjármögnun á verk­efninu og að samningur um dreifingu verði gerður við a.m.k. 2 sjónvarpsstöðvar á tveimur mál­svæðum.

MEDIA leggur áherslu á að efni sem það styrkir fái dreifingu víða. Það er mat stjórnenda MEDIA að framleiðendur séu líklegri til að koma efni sínu á stærri markað en sjónvarps­stöðvar sem hafa það meginverkefni að sinna áhorfendum sínum. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að MEDIA styrkir sjálfstæða framleiðendur.


VII. Leikið íslenskt sjónvarpsefni – Hvað er til ráða

Hugmyndir um Sjónvarpsmyndasjóð

Eins og fram hefur komið er framleiðsla á leiknu íslensku sjónvarpsefni hvorki fugl né fiskur. Ekkert bendir til að þetta ástand breytist nokkru sinni nema að til komi öflugur stuðningur.

Margir þeir sem sinna menningu á Íslandi eru sammála um að efling leikinna verka í íslensku sjónvarpi sé forgangs- og sjálfstæðismál. Bandalag íslenskra listamanna, Fram­leið­enda­félagið SÍK, Kvikmyndasjóður Íslands, Akademían og fleiri aðilar hafa á undan­förnum mánuðum velt upp hugmyndum að leiðum til að efla gerð leikins efnis í sjónvarpi. Sú hugmynd sem flestum líst best á er í skemmstu máli sú að stjórnvöld stofni öflugan sjóð upp á til dæmis 300 milljónir árlega til gerðar leikins sjónvarpsefnis til sýninga á hvaða íslenskri sjónvarpsstöð sem er. Framar í þessari skýrslu eru einfaldir útreikn­ingar sem sýna hvað hægt væri að gera fyrir þá upphæð.

Fullyrða má að þessi upphæð myndi gildna verulega þegar við hana bættist samfram­leiðslu­fé og styrkir frá erlendum sjóðum. Með innlendum stuðningi myndi í fyrsta skipti opnast leið til að nýta þá möguleika til fulls. Ef ekkert eða lítið fé rennur til leikins efnis innan­lands fæst svo sannarlega ekkert erlendis. Með sjóði yrði aðstaða allra íslenskra sjón­varps­stöðva jöfnuð og þeir aðilar sem væru duglegastir og hugmyndaríkastir myndu fá umbun í góðu efni og miklu áhorfi.

Hugsa mætti sér það skipulag að sjálfstæðir framleiðendur semdu við sjónvarpsstöðvar um verkefni. Síðan myndu þessir aðilar sækja saman um í sjóðinn og fá úthlutað að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þar yrði að leggja gríðarlega áherslu á fagmennsku í hand­rits­þróun sem er nokkuð sem sjálfstæðir íslenskir framleiðendur þekkja nú vel, meðal annars í gegnum erlenda samframleiðendur. Það sem meðal annars mælir með því að sjónvarps­stöðvarnar vinni með sjálfstæðum framleiðendum er að eftir nokkuð vel heppnaða endur­reisn íslenskra kvikmynda á síðustu árum, með auknum framlögum sam­hliða kröfum um samstarf við erlenda aðila, búa þeir að víðtækum samböndum út fyrir landsteinana og mik­illi þekkingu og reynslu. Nú er því á Íslandi komin upp sú staða sem var þegar danska ríkis­sjónvarpið hóf göngu sína að til er hópur innlendra kvik­myndagerðarmanna sem komið geta til liðs við sjónvarpsstöðvarnar. Fullyrða má einnig að ef gerð leikinna sjónvarpsverka er í höndum sjálfstæðra kvikmyndafyrirtækja sækja þau fé út fyrir landsteinana af meira afli en dagskrárstjórar sjónvarpsstöðvanna sem varla geta sinnt því, miðað við núverandi skipu­lag, öðru vísi en með því að van­rækja önnur svið dagskrárinnar.

Hiklaust má búast við að framlag sjónvarpsstöðvanna, ásamt samframleiðslufé og fé sem myndi koma úr sjóðum, þegar raunveruleg innlend framleiðsla væri komin af stað, gæti numið nálægt 200 milljónum króna árlega. Með því væru Íslendingar farnir að fram­leiða leikið efni fyrir ríflega fimm hundruð milljónir árlega.

Það er ekki ofmælt að slíkt átak myndi stórefla þjóðarvitund Íslendinga, íslenskt mál og menningu. Þorsteinn Þorsteinsson, markaðsstjóri Ríkisútvarpsins, segir að gera megi ráð fyrir áhorfi upp á 25 – 40% á leikið íslenskt sjónvarpsefni sem sýnt er í Sjónvarpinu á átt­unda tímanum á sunnudagskvöldi. Heppnist efnið mjög vel má búast við enn betra áhorfi.

Til viðbótar þessu gæti efling íslenskra leikinna sjónvarpsverkefna orðið það lokaskref sem stíga þyrfti til að íslenskur kvikmyndaiðnaður yrði að raunverulegum iðnaði þar sem nokkur framleiðslufyrirtæki gætu sinnt sæmilega jöfnum rekstri árið um kring. Mörg íslensk kvikmyndafyrirtæki berjast nú í bökkum vegna þess að þau hafa ekki næg viðfangs­efni. Með því að framleiðsla hæfist á leiknu efni fyrir um fimm hundruð milljónir árlega með þeim umsvifum og erlendu viðbótarsamböndum sem fylgdu gæti undir­staða íslensks kvikmyndaiðnaðar gjörbreyst.

Hér að neðan er ímyndað dæmi, sem einnig er að finna framar í þessari skýrslu, um hvernig framleiðslan gæti verið samansett ef um alvöru framleiðslu væri á ræða á leiknu sjónvarps­efni á Íslandi.

 

 

Fjöldi þátta

Lengd í mínútum

Fjöldi mínútna

Mínútuverð

Kostnaður

Gamanþáttaröð

12

30

360

194.444

69.999.840

Sápa

12

45

540

194.444

104.999.760

Þáttaröð (3*4)

12

55

660

293.750

193.875.000

Sjónvarpsmyndir

8

58

464

293.750

136.300.000

 

 

 

2.024

 

505.174.600

 

Gera má ráð fyrir að gamanþáttaraðir og sápur væru einungis framleiddar til sýninga á Íslandi en að þáttaraðir og sjónvarpsmyndir hefðu nálægt því sömu möguleika og kvik­myndir á fjármögnun úr erlendum sjóðum. Ljóst er af samtölum við framleiðendur og sjón­varps­stöðvar að bolmagn þeirra til fjármögnunar innlendra sjónvarpsþáttaraða og sápa fyrir íslenskan markað er hverfandi eða alls ekkert. Því er gert ráð fyrir að Sjónvarpsmyndasjóður þyrfti að styrkja slíka framleiðslu um 85%, innlendar sjónvarps­stöðvar myndu greiða 12,5% af framleiðslukostnaði og 2,5% kæmu frá öðrum inn­lendum aðilum sem er sama hlutfall og hefur komið frá þeim hópi til kvikmynda. Hins vegar er gert ráð fyrir að þáttaraðir og sjónvarpsmyndir mætti fjármagna á sama hátt og íslenskar kvikmyndir hafa verið fram­leiddar.

Hlutfallsleg skipting fjármögnunar íslenskra kvikmynda 1991 - 1999

 

Kvikmyndasjóður Íslands

Innlendir framleiðendur

Aðrir innlendir aðilar

Erlendir sjóðir

Erlendir meðframleiðendur

Samtals

Hlutfall

21,51%

20,81%

2,59%

23,07%

32,02%

100,00%

Samtals

536.532

518.971

64.718

575.366

798.597

2.494.184

Úr skýrslu Aflvaka um kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi.


Gert er ráð fyrir að hlutfallsleg skipting fjármögnunar þáttaraða og sjónvarpsmynda gæti farið fram á svipaðan hátt og þegar um kvikmyndir er að ræða. Til varúðar er gert ráð fyrir að hlutfall erlendra aðila í framleiðslu gæti orðið nokkru lægra en það hefur verið við fjár­mögnun íslenskra kvikmynda (65% af því hlutfalli sem íslenskar kvikmyndir hafa fengið erlendis frá). Ástæðan er meðal annars sú að með Sjónvarpsjóði yrði mikil aukning á eftir­spurn frá Íslandi eftir erlendu samframleiðslufé og styrkjum. Þessi eftir­spurn er nú þegar mikil vegna íslenskra kvikmynda. Það er því ekki hægt að búast við að hægt sé að yfirfæra hlutfall erlends fjármagns í íslenskum kvikmyndum beint yfir á metn­aðar­fulla framleiðslu á leiknu íslensku sjónvarpsefni.

Ef stuðst er við fyrrgreindar forsendur má skoða hvernig líklegt er að fjármagna mætti sjón­varpsframleiðslu fyrir rúmlega hálfan milljarð:

 

 

Sjónvarps­
sjóður

Sjónvarps-stöð

Aðrir innl. aðilar

Erl.
sjóðir

Erl. meðframl.


Samtals

Fyrir innl. markað

85,0%

12,5%

2,5%

0,0%

0,0%

100,0%

Gamanþáttaröð

59.499.864

8.749.980

1.749.996

-

-

69.999.840

Sápa

89.249.796

13.124.970

2.624.994

-

-

104.999.760

Fyrir innl. og
erl markað

42,3%

20,8%

2,6%

14,5%

19,8%

100,0%

Þáttaröð

82.009.125

40.345.388

5.021.363

28.111.875

38.387.250

193.875.000

Sjónvarpsmyndir

57.654.900

28.364.030

3.530.170

19.763.500

26.987.400

136.300.000

Samtals

288.413.685

90.584.368

12.926.523

47.875.375

65.374.650

505.174.600

 

Miðað við ofangreindar forsendur um skiptingu fjármögnunar þyrfti að safna tæplega 290 milljónum til úthlutunar Sjónvarpsmyndasjóðs til þess að framleiða leikið íslenskt sjón­varpsefni fyrir rúmlega hálfan milljarð. Búast mætti við rúmum 113 milljónum frá erlendum sjóðum og meðframleiðendum og rúmum 103 milljónum frá innlendum sjón­varps­stöðvum og öðrum innlendum aðilum.

Í skýrslu Aflvaka um kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi, sem út kom 1998, voru reiknuð út árs­verk í greininni og skatttekjur ríkisins af henni. Miðað við sömu aðferðarfræði og forsendur um laun í greininni og þar er að finna má reikna út ársverk sem Sjónvarps­mynda­sjóður myndi skapa og skatttekjur af honum. Í skýrslunni um kvikmyndaiðnaðinn var miðað við eftirfar­andi kostnaðarskiptingu við framleiðslu kvikmynda:

 

Tegund kostnaðar

Hlutfall

Laun

40%

Annar kostnaður*

40%

Erlendur kostnaður**

20%

Samtals

100%

* Annar kostnaður, t.d. tæki og búnaður, mynd- og hljóðver, leikmynd, aðkeypt þjónusta.
** Gert er ráð fyrir 20% erlendum kostnaði við framleiðslu kvikmynda. Þessi liður er enginn eða hverfandi ef um íslenskt sjónvarpsefni er að ræða.

Þar sem heildarframleiðslukostnaður myndi í tilfelli sjónvarpsframleiðslu allur falla til á Íslandi myndi allt fjármagnið nýtast til atvinnusköpunar á Íslandi. Ef miðað er við að laun séu 40% af heildarframleiðslukostnaði og annar kostnaður sem falli til innanlands sé 60%, en að öðru leyti notast við sömu forsendur og skýrsla Aflvaka hf. um kvikmyndaiðnað á Íslandi gerði, má reikna út hversu mörg ársverk framleiðsla sjón­varps­mynda skapaði:

 

Heildarframleiðslukostnaður

505.174.600

Þar af laun 40%

202.069.840

Meðallaun í greininni á ári*

2.495.072

Ársverk

81

Annar kostnaður

303.104.760

Þar af laun 30%**

90.931.428

Meðallaun í greininni á ári

2.495.072

Ársverk v. annars kostnaðar

36

Heildarársverk á ári

117

* Stuðst er við sömu laun og notuð var í skýrslu um Kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi, uppreiknuð miðað við launavísitölu.
** Stuðst er við sömu forsendu um hlutfall launa af öðrum kostnaði og gert er í skýrslu um kvikmyndaiðnað á Íslandi.

Af þessum niðurstöðum má ráða að Sjónvarpsmyndasjóður myndi skapa 117 ársverk í grein­inni sem væri mikil vítamínsprauta fyrir framleiðslufyrirtækin og atvinnulífið í landinu.

Í skýrslu um kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi eru reiknaðar út skatttekjur ríkisins af kvik­mynda­framleiðslu. Í þeim útreikningum er gert ráð fyrir að skatttekjur séu um 30-35% af heildarframleiðslukostnaði innanlands. Sé gert ráð fyrir lægri skattprósentunni og sömu forsendum um kostnaðarskiptingu og koma fram að ofan myndi ríkið fá 151.552.380 kr. í tekjur af framleiðslunni. Á grundvelli laga sem gilda fram til 2006 um tíma­bundnar endur­greiðslur vegna kvikmyndagerðar er unnt að fá 12% endurgreidd af fram­leiðslukostnaði sem til fellur hér á landi. Miðað við þetta verður að gera ráð fyrir að af þeim 113.250.025 kr. sem koma frá erlendum sjóðum og meðframleiðendum og 103.510.890 kr. sem koma frá innlendum sjónvarpsstöðvum og öðrum innlendum aðilum til framleiðslunnar eða samtals 216.760.915 kr. endurgreiði ríkissjóður 26.011.310 kr. Dæmið lítur þá svona út:

 

Heildarframleiðslukostnaður

505.174.600

Skatttekjur m.v. 30%

151.552.380

Úthlutun sjónvarpsmyndasjóðs á ári

288.413.685

Endurgreiðsla ríkissjóðs (12%)

26.011.310

Kostnaður ríkisins við sjóðinn

162.872.615

 

Miðað við þessar forsendur fengi ríkið tæplega 151,5 milljón af framlagi sínu til sjónvarps­mynda­gerðar aftur í ríkiskassann í formi skatta og endurgreiddi um 26 milljónir af fram­leiðslukostnaði í samræmi við lög um tímabundar endurgreiðslur vegna kvik­mynda­gerðar. Endanlegur kostnaður ríkisins við að stuðla að gerð leikins sjón­varps­efnis fyrir rúmar 505 milljónir króna væri því tæpar 163 milljónir króna eða um 32% af heildarframleiðslu­kostnaði.

Tekið saman er niðurstaðan sú að samkvæmt sömu aðferðarfræði og lögð var til grund­vallar í skýrslu Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands fyrir Aflvaka 1998 myndi um 300 milljón króna Sjónvarpsmyndasjóður skila um 505 milljón króna til nýrrar sjón­varps­framleiðslu. Miðað við forsendur um mínútuverð mætti framleiða fyrir þetta fé fjölbreytt úrval 44 þátta, samtals tæplega 34 klukkustundir á ári. Sjónvarpsmyndasjóð­ur­inn myndi skila um 117 ársverkum sem myndi hafa mikil áhrif á rekstrarskilyrði og möguleika íslenskra kvikmyndaframleiðslu­fyrirtækja. Gera má ráð fyrir að rúmar 113 milljónir af erlendu fjármagni mætti fá inn í landið með tilkomu Sjónvarpsmyndasjóðs en áætlaður endanlegur kostnaður ríkisins við sjóðinn væri tæplega 163 milljónir eða um 32% af heildarframleiðslukostnaði. Leikið sjónvarpsefni yrði það ódýrt í framleiðslu fyrir íslenskar sjónvarpsstöðvar að fyrst og fremst myndi reyna á hæfileika og framtak.

Efling íslenskrar menningar

Það er sjálfsagt ekki hægt að mála það of sterkum litum hversu mikil efling íslenskrar menn­ingar yrði í tengslum við stórátak af þessu tagi. Ótalinn er þá óbeinn gróði samfélagsins eins og af auknum ferðamannastraumi. Í skýrslunni Kvikmyndaiðnaðurinn á Íslandi sem Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Aflvaka haustið 1998 er fjallað um tekjur vegna landkynningaráhrifa. Meðal annars er vísað til kannana Ferða­mála­ráðs Íslands. Í þessum könnunum hafa erlendir ferðamenn frá 1993 verið spurðir hvaðan hugmyndin að Íslandsferð er komin. Gefinn er kostur á ýmsum ástæðum svo sem: Vinir/ættingjar, Bæklingar/handbækur og fleira. Ef litið er til ársins 1999 – 2000 og annars vegar skoðaðir ferðamenn á tímabilinu september til maí og hins vegar júní til ágúst kemur í ljós að 7% þeirra sem komu að vetrarlagi nefna íslenskar bókmenntir og kvik­myndir og að 7,9% þeirra sem komu á sumartíma koma af þeirri ástæðu. 5,1% vetrar­ferðarmanna sama ár nefna þátt í útvarpi/sjónvarpi og 5,6% sumarferðarmanna komu fyrir áhrif frá útvarps- eða sjónvarps­þætti.

Erfitt er að draga víðtækar ályktanir um verðmæti leikins íslensks efnis af þessum tölum. Þó má fullyrða að leikið efni sem fer út fyrir landsteinana hefur áhrif til aukn­ingar ferða­manna­straums. Í sömu skýrslu er til að mynda bent á að þegar þættirnir um Nonna og Manna voru sýndir í Þýskalandi, Sviss, Austurríki og Ítalíu á jólunum 1988 gætti áhrifanna í auknum straumi frá þessum löndum mörg ár á eftir.

Að lokum: Sjónvarpsmyndasjóður – sameiginlegt baráttumál íslenskra listamanna

Áhugi hefur kviknað á því innan Bandalags íslenskra listamanna og á meðal allra samtaka kvikmyndagerðarmanna að félög listamanna í landinu, Sjónvarpið, Skjáreinn, Stöð 2 og stjórnvöld taki höndum saman um að stofna Sjónvarpsmyndasjóð sem ætlað er að styrkja gerð leikinna íslenskra sjónvarpsmynda.

Þegar er hafin vinna við að afla 10 milljóna til að hleypa sjóðnum af stokkum. Féð yrði notað fyrsta starfsárið til að efla gerð handrita að íslenskum sjónvarpsmyndum og leggja aðilar sjóðsins það fram. Áformað er að nota þennan tíma jafnframt til að gera samning við stjórnvöld um 300 milljón króna árlegt framlag til Sjónvarpsmyndasjóðsins.

Gert er ráð fyrir að íslenskar sjónvarpsstöðvar, í samvinnu við sjálfstæða framleið­endur, geti sótt um framleiðslustyrk í Sjónvarpsmyndasjóðinn. Sjóðurinn leggur ákveðna upp­hæð til hvers verks og semur við framleiðanda um mótframlag. Með fulltingi sjóðsins vex þannig framleiðslufé. Með þessu móti er þess jafnframt gætt að frumkvæðið að því í hvað er ráðist liggi hjá sjónvarpsstöð en ekki úthlutunarnefnd úti í bæ.

Valið yrði úr umsóknum eftir handritum, leikstjóra, aðstandendum og fjármögnunar­áætlun. Mikil áhersla yrði lögð á handritsþróun. Allir aðilar að sjóðnum ættu mann í stjórn hans.

Hérlendis hefur engin sjónvarpsstöð bolmagn til að halda uppi stöðugri framleiðslu vand­aðra leikinna sjónvarpsmynda. Öflugur stuðningur með einföldum leikreglum, þar sem frumkvæði stöðvanna er virt getur gert það að verkum að allar íslenskar sjónvarps­stöðvar hefji framleiðslu leikins efnis.


Viðaukar og heimildir

Viðauki I - Skilgreiningar á flokkum leikins sjónvarpsefnis

Gamanþáttaraðir eru framleiddar í 12-24 þátta lotum og er hver þáttur 30 mín. Upptökur fara fram í sjónvarpsstúdíói, í nokkrum föstum leikmyndum, og eru 3 eða fleiri videotöku­vélar notaðar samtímis. Vinnsluaðferðin gefur takmarkað svigrúm til mynd­rænna tilþrifa; þetta þáttaform byggist fyrst og fremst á góðum samtölum og krefst því mjög hæfra hand­ritshöfunda á því sviði. Gamanþáttaraðir (á ensku "sit-com", dregið af "situation comedy") fjalla um lítinn hóp fastapersóna og er hver einstakur þáttur full­komlega sjálfstæður.

Dæmi: Frasier (Bandaríkin); The Brittas Empire (Bretland); Fornbókabúðin (Ísland). (Einnig er að nefna gamanþáttaraðir sem eru teknar upp á svipaðan hátt og kvikmyndir, þ.e. með einni tökuvél og að talsverðu leyti á vettvangi, t.d. Sex and the City, öðru nafni Beðmál í borginni.)

Sápur eiga það sameiginlegt með gamanþáttaröðum að vera framleiddar í lotum og teknar upp í sjónvarpsstúdíói með 3 eða fleiri videoupptökuvélum. Frásögninni vindur fram með samtölum einvörðungu því upptökuaðferðin - og vinnsluhraðinn - gefur ekki kost á öðru. Í sápu-sögum er einkalífið og tilfinningarnar í brennidepli; þær snúast gjarnan um fjölskyldur eða aðra hópa tengds fólks og rakin eru flókin samskipti nokkuð margra persóna. Sápur eru hreinræktaðir framhaldsþættir og einstakir þættir standa því ekki sjálfstætt.

Dæmi: Guiding Light (Bandaríkin), Neighbours (Ástralía/Bretland)

Dramatískar þáttaraðir eru framleiddar í lotum og er hver þáttur fast að klukkutíma langur. Vinnsla þátta af þessu tagi er áþekk því sem gerist í kvikmyndum: Notuð er ein tökuvél og fara upptökur bæði fram á vettvangi og í stúdíói (þar sem nokkrar mest notuðu leikmyndirnar standa). Nær undantekningalaust eru handritin þannig upp byggð að í hverjum þætti eru tvær eða fleiri atburðarásir í gangi samtímis og myndar ein þeirra sjálf­stæða sögu. Þannig er hver einstakur þáttur sjálfstæður en um leið hluti af langri fram­halds­sögu. Sakamálaþættir og spítalaþættir eru sívinsælir en annars geta drama­tískar þáttaraðir verið af mjög margvíslegum toga, bæði hvar varðar viðfangsefni, stíl og innri byggingu.

Dæmi: Sópranó fjölskyldan (Bandaríkin); At Home with the Braithwaites (Bretland); ER (Bandaríkin); Avocats & associes, öðru nafni Málaflækjur (Frakkland); Taxi (Danmörk).

Míní-þáttaraðir eru framhaldsþættir í nokkrum hlutum (gjarnan 3, 4 eða 6). Oftast eru þættirnir um klukkutíma langir. Yfirleitt er notuð ein tökuvél og vinnslan svipuð og gerist í kvikmyndum. Míní-þáttaraðir henta mjög vel fyrir aðlaganir sígildra bókmennta­verka. Sakamála- og spennusögur eru einnig áberandi - bæði frumsamdar sögur og aðlag­anir vin­sælla reyfara. Einstakir þættir standa ekki sjálfstætt; þetta er framhalds­þátta­form þar sem áherslan er fyrst og fremst á að enda hvern þátt með einhverri óvæntri vendingu í sögunni.

Dæmi: Pride and Prejudice (Bretland); Greifinn af Monte Cristo (Frakkland); Inspector Morse (Bretland); The Russian Bride (Bretland).

Sjónvarpsleikrit eru stök leikin verk tekin upp í stúdíói með 3 eða fleiri videotökuvélum. Það er gömul og gróin hefð fyrir því - bæði hjá evrópsku ríkissjón­varps­stöðvunum og bandarísku almenningssjónvarpsstöðvunum - að taka upp leikrit með þessum hætti, ýmist aðlaganir þekktra sviðsverka eða frumsamin sjónvarpsleikrit. Þessi hefð er nú víðast hvar á hröðu undanhaldi; bæði er lengd sjónvarpsefnis orðin mjög stöðluð og svo hneigjast sjón­varps­stöðvar æ meir til þess að byggja dagskrána upp á þáttaröðum - hvort sem um er að ræða leikið efni, heimildaefni eða annað - fremur en stökum verkum.

Sjónvarpsmyndir (tv-movies) eru stök leikin verk fyrir sjónvarp, unnin á svipaðan hátt og kvikmyndir og yfirleitt í bíómyndalengd (90 mín) nú á dögum.

Sjónvarpsmyndir í óvenjulegum lengdum (t.d. 45 mín eða 60 mín) eru á undanhaldi af sömu ástæðum og sjónvarpsleikrit.

Stuttmyndir eru sögulega séð ein grein kvikmynda og teljast því strangt til tekið ekki til leikins sjónvarpsefnis. En sjónvarp er eigi að síður aðalmiðillinn fyrir stuttmyndir nú á dögum því að það heyrir til undantekninga að þær séu teknar til sýninga í kvikmynda­húsum. Menn greinir á um skilgreininguna á stuttmynd: flestir eru sammála um að stutt­mynd eigi að vera styttri en 20 mínútur og margir telja að hún eigi að vera styttri en 11 mínútur. „Novelle film” er einhversstaðar á milli stuttmyndar og bíómyndar að lengd (sbr. „novella” sem er millistig smásögu og skáldsögu). Tilhneiging er til þess, nú á dögum, að líta á stuttmyndir og „nóvellumyndir” sem æfingavöll fyrir ungt fólk og byrjendur í kvik­myndagerð.

 

 

Viðauki II - Viðmælendur við skýrslugerðina

Anna Rögnvaldsdóttir, kvikmyndagerðarmaður

Ari Kristinsson, kvikmyndagerðarmaður

Árni Þór Vigfússon, sjónvarpsstjóri Skjáseins

Bjarni Guðmundsson, Framkvæmdastjóri Sjónvarpsins

Björn Br. Björnsson, hjá Hugsjón

Helga Margrét Reykdal, hjá Saga Film

Hrafn Gunnlaugsson, kvikmyndaframleiðandi

Jón Þór Hannesson, framkvæmdastjóra Saga Film

Markús Örn Antonsson, útvarpsstjóri

Rúnar Gunnarsson, deildarstjóri Innlendrar dagskrárdeildar Sjónvarpsins

Sigríður Ragna Sigurðardóttir, fulltrúi barnaefnis á Innlendri dagskrárdeild Sjónvarpsins

Sveinbjörn I. Baldvinsson, höfundur og kvikmyndaframleiðandi

Þorfinnur Ómarsson, framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs

Þorsteinn Þorsteinsson, markaðsstjóri Ríkisútvarpsins

Norrænir tengiliðir sem gáfa upplýsingar:

Thomas Porskjær, DR TV-Drama

Anja Kolehmainen Yle/TV1

Daniel Alfredson/SVT Fiktion Stockholm

Gunnar Carlsson, enhedssjef SVT

Hallvard Blekastad, faggruppesjef NRK

Steffen Johanssen, framkvæmdastjóri Nordvision


Heimildaskrá:

Prentaðar heimildir

Ársskýrsla Ríkisútvarpsins 1976. Reykjavík 1976.

DV, miðvikudaginn 24. okt. 2001

DR TV Dramanyt, 2. halvår 2000

DR TV Dramanyt, Sæson 2001-2002

Frumvarp til fjárlaga 2001.

Kvikmyndaiðnaður á Íslandi, Staða, horfur og möguleikar, Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands 1998.

Hrafn Gunnlaugsson: „Återblick och framtidshopp”. Nordvisjonen 40 år 1959 - 1999

Ólafur J. Engilbertsson: Leikmyndlist á Íslandi 1950-2000, BA-ritgerð í sagnfræði. Háskóli Íslands vor 2001

Árni Ibsen: „Áhorfandinn afruglaður” Morgunblaðið, Lesbók, 15. september 2001.

Óprentaðar heimildir

Markús Örn Antonsson: Markmið varðandi þróun í rekstri og framkvæmdum Ríkisútvarpsins 2001-2005. Dagsett 12.1.2001.

RÚV Sjónvarp. Frumflutt leikið efni 1990 – 1999. Sigrún Sigurðardóttir tók saman

Heimasíður sem efni er sótt á

Framleiðendafélagið SÍK: http://www.producers.is/

MEDIA: http://www.centrum.is/mediadesk

Nordvision: http://www.nordvisjonen.org/[1] Framleiðendafélagið SÍK er samband íslenskra félaga og fyrirtækja sem framleiða allar tegundir kvikmynda.

[2] Leitast er við að skilgreina helstu flokka leikins efnis í sjónvarpi í viðauka I með þessari skýrslu. Byggt er á lýsingu sem Anna Rögnvaldsdóttir kvikmyndagerðarmaður gerði fyrir FK og Framleiðendafélagið SÍK.

[3] MEDIA er skammstöfun á „Measures to Encourage the Development of the European Industry of the Audiovisual Prduction” sem útleggst á íslensku: Átak til eflingar evrópsks kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðar. Áætlunin er á vegum Evrópusambandsins. EFTA ríkin Ísland, Noregur og Lichtenstein eiga aðild að áætluninni fyrir tilstilli EES samningsins um hið evrópska efnahagssvæði.

[4] Við framleiðslu á stórri röð má hiklaust gera ráð fyrir að hægt sé að lækka þetta mínútuverð umtalsvert vegna stærðarhagkvæmninnar.